Evrópska samgönguvikan fer fram dagana 16.–22. september en að þessu sinni er yfirskrift hennar „Samgöngur fyrir öll“.
Akureyrarbær tekur þátt í vikunni með fjölbreyttum viðburðum. Aðalviðburður vikunnar verður svokallað Aðgengisstroll, sem haldið verður í samstarfi við Sjálfsbjörg á Akureyri og Virk efri ár, miðvikudaginn 17. september kl. 16.30. Farið verður frá Lystigarðinum að Íþróttahöllinni, um 400 metra leið. Á bílaplaninu við Íþróttahöllina verður boðið upp á grillaðar pylsur og samtal um upplifun þátttakenda. Þar verður einnig aðgengilegur strætisvagn til sýnis og gestum gefst tækifæri til að prófa að fara yfir minni hindranir í hjólastól undir leiðsögn Sjálfsbjargar. Bæjarfulltrúar munu fara leiðina í hjólastólum sem Sjálfsbjörg útvegar og öðlast þannig innsýn í daglega reynslu fólks með skerta hreyfigetu. Öll eru velkomin til að taka þátt og ræða saman um aðgengi og hindranir í nærumhverfinu.