Lokaorðið - Vinabeiðnir

Heiðrún  átti Lokaorðið í blaðinu s.l fimmtudag
Heiðrún átti Lokaorðið í blaðinu s.l fimmtudag

Ég þreytist ekki á að vara fólk við svikatilraunum af ýmsu tagi. Svikahrappar finna sífellt nýjar leiðir til að reyna að nappa af okkur. Að öllu jöfnu eru þetta ekki einstaklingar heldur hluti af alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

Ein svikaaðferð er vel þekkt. Einhver, yfirleitt tilbúinn prófill, reynir að vingast við fólk á netinu, t.d. í gegnum facebook, skilaboð eða hvaðeina. Þessir aðilar kunna sitt fag og eru góðir í að byggja upp traust. Takist það líður ekki á löngu þar til þeir fara að biðja um greiða. Hver sem hann er þá leiðir það alltaf til þess að það þarf að senda þeim pening. Fyrir sjúkrakostnaði eða lán til að brúa bil þar til hann fær háar fjárhæðir sem hann bíður eftir.

Flestir átta sig á þessu og eru fyrir löngu búnir að slíta sambandinu. Aðrir, því miður, eru góðviljaðir og trúa engu slæmu upp á þennan nýjan vin. Eitt sinn hringdi eldri kona í mig. Ég hafði deginum áður verið i útvarpinu að vara við svikum. Hún sagði að Vilhjálmur prins væri orðinn vinur sinn. Hann hefði sent henni vinabeiðni á facebook. Og þau höfðu verið í sambandi þar.

Hún var þó aðeins komin í smá vafa því hann vantaði pening, og var að biðja hana um að senda sér pening. Ég reyndi að halda aftur að hlátrinum, hélt að þetta væri einhver vinur minn að grínast í mér. En konan var svo einlæg og virkilega góðhjörtuð. Ég fór yfir með henni að það væri engar líkur á því að Vilhjálmur hefði tíma í að tala við ókunnugt fólk á netinu, auk þess væru örugglega afar strangar öryggisreglur í bresku konungshöllinni.

Benti henni jafnframt á að þessi fjölskylda væri afar vel aflögufær, auk þess sem hún væri að stórum hluta fjármögnum af enskum skattgreiðendum. Konan virtist sannfærð og þakkaði mér fyrir, þetta væri auðvitað einhver vitleysa. Svo var eins og það snerist í henni í lok samtals. Hún sagðist alls ekki vera viss, hann væri alveg eins og prinsinn og hún væri nokkuð viss um ég hefði rangt fyrir mér. Við það kvaddi hún og ég heyrði ekki meira frá henni.

Á þessum sama tíma kom upp orðrómur, samkvæmt bresku pressunni, að prinsinn væri að hitta aðra konu en hana Kötu sína. Án þess að vita það með vissu er ég nokkuð viss um að það var þó ekki þessi eldri vinkona mín, hún var of góðhjörtuð. Í vikunni fékk ég sjálf vinabeiðni frá Vilhjálmi prins á facebook. Þarna er hann alþýðulegur og virkar svo hreinn og beinn. Þetta getur ekki verið einhver vitleysa. Ég er aðeins að sofa á því hvort ég eigi að samþykkja vinabeiðnina og láta á þetta reyna. Það er vissulega gaman að eignast nýja vini.

 

Prinsinn er að leita vina á Facebook

Tala nú ekki um vini í útlöndum. Kannski fengi ég heimboð í höllina. Ég hef ekki áður fengið jafn spennandi vinabeiðni.

Ég vil síður missa af góðum tækifærum.

Held ég láti á þetta reyna.

Getur maður einhvern tímann verið alveg viss í sinni sök?

 

Nýjast