Pistlar

Skynsamleg ráðstöfun á skattfé á nýjum eða sama stað?

Skynsamleg ráðstöfun á skattfé á nýjum eða sama stað?

Það getur komið að þeim tímapunkti í lífi fólks að það þurfi meiri aðstoð en hægt er að veita í heimahúsi. Áður en óskað er eftir dvöl á hjúkrunarheimili þurfa öll önnur úrræði að vera fullreynd. Til þess að eiga kost á dvöl á hjúkrunarheimili þarf að sækja um færni- og heilsumat. Dvalarheimili aldraðra sf í Þingeyjarsýslum var formlega stofnað á Húsavík 8. janúar 1976. Stofnendur voru Húsavíkurbær ásamt 12 sveitarfélögum frá Ljósavatnshreppi að vestan til Raufarhafnarhrepps að austan. Fyrsta verkefni félagsins var bygging dvalarheimilis á Húsavík og var hafist handa 20. ágúst 1976. Fyrstu íbúar fluttu svo í Hvamm 2. maí 1981.

Dvalarrými verða hjúkrunarrými

Hvammur á Húsavík hefur í tímans rás breyst í hjúkrunarheimili og sveitarfélögin greitt umtalsverða fjármuni til að halda úti þeirri þjónustu í Þingeyjarsýslu. Hjúkrunarrými eru tvenns konar. Annars vegar eru rými sem ætluð eru einstaklingum sem þurfa að flytjast á hjúkrunarheimili til langframa. Þeim er tryggð búseta þar til æviloka nema heilsufarslegar eða persónulegar aðstæður breytist og bjóði annað. Hins vegar eru rými til tímabundinnar dvalar sem ætluð eru einstaklingum sem þurfa hvíldarinnlögn eða endurhæfingu með það að markmiði að geta flutt heim aftur. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er skýrt kveðið á um ábyrgð ríkisvaldsins á rekstri hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma.

Ágreiningur um rekstur hjúkrunarþjónustu

Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekur hjúkrunarþjónustu í Hvammi, húsnæði í eigu Norðurþings, Tjörneshrepps og Þingeyjarsveitar. Þörfin fyrir hjúkrunarrými ætti að vera öllum ljós. Í meira en áratug hefur umræða verið um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Þingeyjarsýslum, á Húsavík til að mæta þeim þörfum sem hjúkrunarþjónusta útheimtir enda húsnæðið Hvamms hannað og byggt til annars en það gerir í dag. Á undanförnum árum hefur verið uppi ágreiningur milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun og rekstur hjúkrunarheimila. Nokkur sveitarfélög hafa skilað rekstrinum til ríksins. Hér í Þingeyjarsýslum rekur Heilbrigðisstofnun Norðurlands hjúkrunarheimilið á Húsavík, ber ábyrgð á rekstri þess og mun gera áfram.

Byggingarkostnaður hjúkrunarheimila

Sumarið 2022 var skipaður starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra með það hlutverk að greina eignarhald og fjármögnun á húsnæði hjúkrunarheimila. Farið var yfir eignarhald á hverju heimili auk framlags til viðhalds og endurbóta á einstaka heimili. Af byggingarkostnaði hjúkrunarheimila greiðir ríkissjóður 85% og sveitarfélög 15% auk þess að sveitarfélögunum ber að útvega lóð undir byggingar að kostnaðarlausu. Í skýrslunni er enn frekar hnykkt á því að ríkissjóður ber einn ábyrgð á veitingu þjónustunnar.

Í kjölfar niðurstöðu starfshópsins var skipaður vinnuhópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis til að vinna að sameiginlegri útfærslu á breyttu fyrirkomulagi fasteignamála hjúkrunarheimila og gera tillögu að nauðsynlegum lagabreytingum í kjölfarið. Í skýrslu vinnuhópsins er kveðið á um sveitarfélögin verða leyst undan skyldum sínum um sama efni og framkvæmdasjóður aldraðra verður lagður niður.

Ráðstöfun á skattfé almennings

Farið var í hönnunarsamkeppni um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík. Búið er að grafa fyrir grunni þess. Ekkert tilboð barst í byggingu heimilisins innan tilskilins frest í verkið. Kostnaður við verkefnið, eins og það blasir við okkur, væri óskynsamleg ráðstöfun á skattfé. En meginmarkmið með nýju fasteignafyrirkomulagi hjúkrunarheimila er m.a. að auka hagkvæmni og framkvæmdahraða vegna fjárfestinga þannig að aðstaða sé til staðar í samræmi við þjónustuþörf hverju sinni, auka sveigjanleika og sérhæfingu við byggingu og rekstur hjúkrunarheimila. Sömuleiðis að tryggja að fjármunir séu til staðar til að hægt sé að ráðast í nauðsynlegt viðhald og endurbætur og koma í veg fyrir viðhaldsskuld. En almennt gert er ráð fyrir að rekstraraðili hjúkrunarheimilis og eigandi húsnæðis séu sitthvor aðilinn.

Sem minnstar tafir

Æskilegt er að aldraðir eigi kost á hjúkrunarþjónustu í sinni heimabyggð. Húsavík er kjarni þessarar þjónustu. Því þarf að tryggja að tafir og seinkun á uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík verði sem allra minnstar. Nú þarf að hafa hraðar hendur og vanda sig. Verkefnið þarf að hugsa upp á nýtt með nýjum útfærslum.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings

 

Lesa meira

Vísindafólkið okkar - Fyrrum sauðfjárbóndi, verkefnastýra og doktor sem bakar ekki pönnukökur

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólki Háskólans á Akureyri. Hulda Sædís, lektor við Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum er vísindamanneskja febrúarmánaðar. 

Áföllin og ávextirnir 

Hulda Sædís rannsakar eflingu og vöxt í kjölfar áfalla sem útleggst á ensku sem post-traumatic growth. Hugtakið felur í sér jákvæða, sálfræðilega breytingu hjá einstaklingi eftir mikla erfiðleika og áföll. Í því felst aukinn persónulegur styrkur, aukin ánægja í samböndum við annað fólk og jákvæð breyting á lífssýn þar sem viðkomandi kemur auga á nýja möguleika í lífinu. Þrátt fyrir að lífsreynslan sem um ræðir sé neikvæð í sjálfri sér, hefur hún þegar upp er staðið ákveðinn tilgang fyrir viðkomandi.Rannsóknir Huldu hafa snúið að eflingu og vexti meðal fólks sem hefur orðið fyrir mismunandi tegundum áfalla. Undanfarin ár hefur hún lagt áherslu á að rannsaka eflingu og vöxt meðal kvenna sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum. 

Lesa meira

Mannréttindi. Tjáningarfrelsið.

Í upphafi síðustu viku birtist á vefmiðlinum visir.is skoðanagrein sem send hafði verið þangað til birtingar. Höfundur greinarinnar var lögmaður og var í henni sett fram hvöss gagnrýni á fréttamann fyrir birtingu frétta af tilteknu máli. Yfirmaður fréttamannsins hafði áður svarað gagnrýninni með því að vísa til tjáningarfrelsis fréttamannsins sem varið væri af 2. mgr. 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.  Um þetta ritaði greinarhöfundur eftirfarandi:

,,Það er ansi langt seilst þegar yfirmaður starfsmanns þarf að teygja sig alla leið í stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu til að réttlæta umfjöllun starfsmannsins. Það bendir til þess að viðkomandi hafi vondan málstað að verja og vekur enn fleiri spurningar en áður um fagleg vinnubrögð „útvarps allra landsmanna“.

Það er erfitt að komast hjá því að túlka þessi orð á annan veg en svo að höfundur greinarinnar telji að íslensk stjórnarskrá sé aðeins einhverskonar hálmstrá sem þeir einir grípi í sem þurfa að verja málsstað sem í raun sé óverjandi.  Með öðrum orðum að þeir sem vísi í ákvæði hennar til stuðnings afstöðu sinni veiki málsstað sinn með því. Það er nýlunda að sjá löglærða menn setja slíkt fram og því er rétt að gera fyrirvara um hvort þetta var í raun meining höfundar.

Lesa meira

Ofbeldi á aldrei rétt á sér.

Ofbeldi hefur aukist á Íslandi. Um er að ræða allar tegundir ofbeldis, heimilisofbeldi, kynferðis ofbeldi, andlegt ofbeldi og stafrænt ofbeldi svo eitthvað sé nefnt. Ofbeldi á sér ótal myndir og ekki alltaf sem þolendur átta sig á því að þeir búa við ofbeldi.

 Ofbeldi meðal þeirra sem neyta áfengis og eða vímuefna hefur harðnað og þeir sem eiga við vímuefnafíkn að etja verða frekar þolendur ofbeldis. sem og gerendur. Það er vissulega áhyggjuefni að þegar einstaklingar hafa lokið vímuefnameðferð eiga þeir eftir að vinna úr ofbeldinu, hvort sem þeir eru þolendur eða gerendur.

Lesa meira

Forðumst slysin – nýtum tækifærin

Reinhard Reynisson skrifar um staðsetningu nýrrar dagvöruverslunar á Húsavík

Lesa meira

Mannréttindi. Upplýsingaöflun lögreglu um einkamálefni manna.

Með 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er öllum sem staddir eru innan íslenskrar lögsögu tryggður réttur til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í 2. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um að ekki megi gera tilteknar rannsóknaraðgerðir sem skerða friðhelgi einkalífs nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Á það meðal annars við um rannsókn á símtölum eða öðrum fjarskiptum. Þessu til viðbótar gilda ýmis strangari lagaákvæði sem vernda sérstaklega ýmis samskipti manna við sérfræðinga sem eðli máls samkvæmt bera þagnarskyldu um efni samskiptanna, svo sem lögmenn, sálfræðinga, presta, lækna o.fl. og eru slík ákvæði áþekk í flestum frjálslyndum lýðræðisríkjum. Lögin taka ekki mið af þróun síðustu ára varðandi það sem hægt er að kalla rafræna tilvist eintaklinga og því má halda fram með ágætum rökum að sá fátæklegi dómskaparréttur sem til er á þessu sviði eigi sér ekki sterkan lögfræðilegan grundvöll eins og tæknin hefur þróast.

Lesa meira

Nú er hægt að greiða fyrir bílastæði á Akureyri með appi án aukagjalda

Verna hefur opnað appið sitt fyrir öll, hvort sem bíllinn er tryggður hjá Verna eður ei.  Meðal nýjunga í appinu er sá möguleiki að leggja bílnum í gjaldskyld stæði án þess að greiða aukagjöld.  Í notkun á appinu felst engin skuldbinding, bara ávinningur þar sem notendur geta nýtt sér ýmis sértilboð og fríðindi.

Lesa meira

Kollsteypa með dropateljara á Akureyri

Í talsvert einfaldaðri mynd má segja að heilbrigðiskerfið íslenska eigi sér fjórar stoðir. Heilsugæsla, sjúkrahúsþjónusta, sérfræðiþjónusta og öldrunarþjónusta. Þrjár af þessum fjórum stoðum eiga undir verulegt högg að sækja á Akureyri og svar ríkisstjórnarinnar, ábyrgðaraðila kerfisins, virðist vera að fela einkafyrirtæki að leysa vandann.

Lesa meira

Rann­sókn á or­saka­ferli í kjöl­far sjálfs­vígs

Þann 1. desember sl. lagði undirrituð fram tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs. Tillagan hefur það að markmiði að stuðla að öflun gagna sem nýtast við greiningu á áhættuhópum, í forvarnastarfi og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Þess er farið á leit í tillögunni að starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar, eigi síðar en 1. maí 2024. Tillagan er unnin í miklu samstarfi við embætti Landlæknis og vil ég sérstaklega þakka Guðrúnu Jónu Guðlaugsdóttur, verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna og Högna Óskarssyni, geðlækni og ráðgjafa fyrir þeirra þátt í vinnunni, sem var ómetanlegur.

Þörf á breytingum

Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Ef raunin er ekki sú, þá er almennt ekki aðhafst meira. Rannsókninni lýkur og orsökin er skráð í dánarmeinaskrá. Það á m.a. við ef um sjálfsvíg er að ræða. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs. Þá er m.a. átt við brottfall úr skóla, atvinnumissi eða langvarandi atvinnuleysi, sambandsslit, makamissi, ofbeldi, neyslu vímugjafa og hvað annað sem getur haft áhrif. Með slíkri rannsókn er hægt að afla hagnýtra gagna sem geta skipt sköpum í áframhaldandi vinnu samfélagsins gegn sjálfsvígum, bæði í forvarnavinnu og við mótun fyrirbyggjandi aðgerða. Gögnin myndu einnig nýtast við það mikilvæga verkefni að greina áhættuhópa í samfélaginu, þ.e. þá hópa sem líklegri eru til að upplifa sjálfsvígshugsanir, gera sjálfsvígstilraunir eða deyja í sjálfsvígi, umfram hefðbundnar breytur á borð við kyn, aldur og búsetu. Nú eru slík gögn ekki til staðar.

Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna

Í gær kynnti Landlæknir aðgerðir gegn sjálfsvígum og nýja miðstöð sjálfsvígsforvarna. Miðstöðin, sem hlotið hefur nafnið Lífsbrú, varð að veruleika þegar föstu fjármagni frá Heilbrigðisráðuneytinu var veitt ótímabundið í sjálfsvígsforvarnir. Hér er verið að taka risastórt skref í átt að breytingum til hins betra og því ber sannarlega að fagna. Á heimasíðu verkefnisins, www.lifsbru.is segir:

„Markmið Lífsbrúar er að fækka sjálfsvígum á Íslandi í samræmi við áætlun stjórnvalda. Það verður gert með því að velja gagnreyndar aðferðir sem reynst hafa vel í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Einnig að þróa og innleiða verklag, fræðsluefni og leiðbeiningar til að nota á öllum stigum forvarna, ásamt því að stuðla að vitundarvakningu og símenntun.

Markmiðum verður náð með breiðri samvinnu fagfólks, notenda, stofnana og félagasamtaka en einnig með fjáröflun til sjálfsvígsforvarna. Í því skyni hefur verið stofnaður sjóður með sama nafni.“

Sem samfélag viljum við alltaf gera betur

Sjálfsvíg eru viðkvæmt samfélagslegt málefni. Þau hafa mikil áhrif á aðstandendur og jafnvel heilu samfélögin. Áhrifin teygja anga sína víða en samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verða að meðaltali 135 einstaklingar fyrir áfalli í kjölfar sjálfsvígs eins einstaklings. Talið er að um sex þúsund manns verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári hér á landi. Samfélagið vill gera betur, grípa einstaklinga í áhættuhópum, ganga í fyrirbyggjandi aðgerðir, efla forvarnastarf og bjóða upp á sálræna aðstoð fyrir bæði einstaklinga í áhættuhópum og aðstandendur þeirra. Við höfum þörf fyrir að ávallt fari fram rannsókn, svo að komast megi að því hvað hafi gerst og finna alla annmarka sem eru á öryggisneti samfélagsins.

 

Lesa meira

Uppbygging færni- og hermiseturs stóreflir kennslu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, hafa undirritað samkomulag um fjárveitingu til að hefja undirbúning og uppbyggingu húsnæðis sem hýsir færni- og hermisetur við Háskólann á Akureyri.

Lesa meira