Að refsa einstaklingi fyrir alvarleg afbrot með fangelsisvist, er eitthvað sem flestir geta verið sammála um að sé nauðsynlegt. Fæstir átta sig hins vegar á hve frelsissviptingin ein og sér hefur gríðarleg áhrif á einstakling sem dæmdur hefur verið til vistar í fangelsi og ef betrunarúrræðin eru ekki til staðar er næsta öruggt að sá einstaklingur er lýkur afplánun, kemur út í samfélagið aftur í verra ástandi en hann var í þegar afplánun hófst. Stundum held ég að þessi hópur samfélags okkar sé álitinn hin skítugu börn Evu sem flestir vita af en enginn vill af þeim vita. Eins og að vandamálin hverfi um leið og kveðinn er upp dómur. Allir þeir einstaklingar sem fá á sig dóma eru synir, dætur, bræður, systur og barnabörn einhverra. Að afplána dóm hefur ekki bara gríðarleg áhrif á fangann heldur líka hans nánustu aðstandendur sem ég tel vera algjörlega týndan hóp innan kerfisins. Kerfis sem fyrir löngu er molnað í sundur. Kerfi sem nær ekki að eiga samskipti. Kerfi sem þarf að taka alvarlega til í og snýst hreinlega um líf eða dauða fólksins okkar.