Flug til framtíðar
Fyrsta flug easyJet frá Manchester lenti á Akureyrarflugvelli í gær en flogið verður á þriðjudögum og laugardögum frá nóvember út mars. Samtals verða þetta því 40 flug í vetur með 186 sætum hvert og því má búast við 6-7 þúsund farþegum í þessu flugi. Flug frá London Gatwick hófst í síðustu viku og stendur það fram á vor með sömu tíðni og fjölda sæta. Ætla má að flug á þessa áfangastaði geti skilað um 40 þúsund gistinóttum á landinu og aukningu landframleiðslu um 700 milljónir króna. Flugið frá London Gatwick til Akureyrar síðastliðinn vetur gekk framar vonum. Nýting var góð, stöðugur vöxtur í komum erlendra ferðamanna og heimamenn nýttu flugið mjög vel í helgarferðir eða tengingar lengra út í heim. Aðstæður á flugvellinum voru erfiðar vegna þrengsla en starfsfólkið þar á hrós skilið fyrir að veita frábæra þjónustu. Lendingar gengu vel á Akureyrarflugvelli og þurfti easyJet aldrei að nota varaflugvellina. Það sýndi sig að í slæmu veðri þar sem innanlandsflug lá niðri var þrátt fyrir það hægt að fljúga út í heim án vandkvæða. Þannig gat ferðaþjónustan tekið á móti ferðafólki og sýnt Norðurland í fallegum vetrarbúningi.