Skaðaminnkandi þjónusta kynnt á Akureyri
Rauði krossinn við Eyjafjörð heldur kynningu á skaðaminnkunarverkefninu Frú Ragnheiði næsta miðvikudag kl. 16:30 í húsnæði sínu við Viðjulund 2 á Akureyri. Þar verður farið yfir hvað felst í þjónustu Frú Ragnheiðar og notkun á Naloxone nefúða verður kynnt, en nefúðinn getur veitt lífsbjargandi neyðaraðstoð við ofskömmtun.
Rauði krossinn á Íslandi rekur skaðaminnkunarverkefnið Frú Ragnheiður á þremur stöðum á landinu, á Höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri. Frú Ragnheiður vinnur eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði sem gengur út á að takmarka skaðann og áhættuna sem getur fylgt vímuefnanotkun í æð og að bæta lífsgæði og heilsufar notenda, fremur en að reyna að fyrirbyggja notkunina sjálfa. Þannig má takmarka skaðann sem fylgir þessari notkun, bæði fyrir notendur og samfélagið í heild.