Yfirvofandi verkfall BSRB félaga

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Allt stefnir í að verkfall nokkurra félaga innan BSRB verði að veruleika í kringum höfuðborgarsvæðið. Hefst um miðjan mánuðinn. Í vikunni kemur í ljós hvort víðar á landsbyggðunum verði verkfall. Meðal annars hér norðan heiða. Slæm staða en raunveruleg.

Til hvers verkfall

Talið er að verkfall sé neyðarúrræði hvers vinnandi manns til að ná fram bættum kjörum. Opinberir starfsmenn hafa farið sparlega með þennan rétt. Mikið hefur gengið á í samningaviðræðum þegar verkalýðsfélag ákveður að kanna hug félagsmanna til verkfalls. Enginn segir já nema að vel athuguðu máli. Hér er ekki anað út í neitt.

Verkfallsbrot

Þegar verkfall stendur yfir falla aðrir starfsmenn oft í freistingu og ganga í störf þess sem er í verkfalli. Ákveðnar reglur eru um hver má ganga í störfin. Samstarfsmenn mega það ekki sem dæmi. Æðsti yfirmaður má oft sinna störfunum eða hluta þeirra. Hvet starfsmenn þeirra stofnanna sem verkfallið hefur áhrif á að ganga ekki í störf samstarfsmanna. Í skólum á Norðurlandi eru þetta sem dæmi ritarar og húsverðir, gæti verið í einstaka sveitarfélögum þeir sem þrífa.

Látið vita af brotum

Hvet alla launþega til að segja frá verkfallsbrotum á vinnustað, komi til þessa verkfalls. Allir eru ábyrgðir. Gleymum ekki að við gætum staðið í sömu sporum og þá viljum við ekki að aðrir gangi í störf okkar. Félag grunnskólakennara á í viðræðum við sveitarfélögin og enginn veit með vissu hvað gerist þar næstu vikurnar. Berum virðingu fyrir störfum hvors annars.

Helga Dögg Sverrisdóttir,

grunnskólakennari og formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra.


Athugasemdir

Nýjast