Skrifað undir viðbótarsamning um uppbyggingu á KA-svæðinu
Í hádeginu í dag var skrifað undir viðbótarsamning milli Akureyrarbæjar og KA vegna uppbyggingar á KA svæðinu.
Haustið 2019 kom út skýrsla vinnuhóps á vegum bæjarstjórnar Akureyrar um forgangsröðun við uppbyggingu íþróttamannvirkja. Í skýrslunni kemur fram að brýnast þyki að reisa hús á félagssvæði Nökkva. Það hefur nú verið tekið í notkun. Frágangur á félagsaðstöðu í Skautahöll Akureyrar var næst í forgangsröðinni en þær framkvæmdir eru vel á veg komnar.
Uppbygging á nýjum gervigrasvelli og stúku á KA svæðinu var númer þrjú á listanum en samningur um þá uppbyggingu var undirritaður í desember 2021 eins og komið hefur fram. Með undirritun samningsins í dag var tekinn til viðbótar sú framkvæmd sem raðaðist í fjórða sæti í forgangs-skýrslunni frá 2019, það er félagsaðstaða, búningsklefar og æfingaaðstaða á KA-svæðinu.