Handknattleiksdeild KA og Halldór Stefán Haraldsson hafa gert með sér þriggja ára samning og mun Halldór því taka við stjórn á meistaraflokksliði KA eftir núverandi tímabil. Áður hafði Jónatan Magnússon núverandi þjálfari liðsins gefið út að hann myndi hætta með liðið í vor.
Halldór Stefán sem er aðeins 32 ára fór snemma út í þjálfun og kominn með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hann stýrði meðal annars kvennaliði Fylkis árin 2011-2016 og á sama tíma stýrði hann yngri landsliði kvenna fædd 1998 og 1999 á árunum 2012-2015. Hann var í kjölfarið ráðinn aðalþjálfari liðs Volda í Noregi þar sem hann hefur þjálfað frá 2016 en hann lætur nú staðar numið þar og kemur norður í sumar.