Íþróttafólk KA 2023 Helena Kristín Gunnarsdóttir og Hallgrímur Mar Steingrímsson

Helena Kristín og Hallgrímur Mar. Mynd Þórir Tryggvason
Helena Kristín og Hallgrímur Mar. Mynd Þórir Tryggvason

Kjöri íþróttafólks KA  fyrir árið 2023 var lýst í afmæliskaffi  sem fram fór í KA heimilinu i dag.  Það voru  þau Helena Kristín Gunnarsdóttir blakdeild  og Hallgrímur Mar  Steingrímsson knattspyrnudeild  sem sæmdarheitin hlutu.

Í umsögn frá KA um þau segir:

,,Helena Kristín var ein af lykilmanneskjunum í framúrskarandi blakliði KA þegar stelpurnar okkar unnu alla þá titla sem hægt var að vinna tímabilið 2022-2023. Stelpurnar urðu Meistarar meistaranna, deildarmeistarar, bikarmeistarar og að lokum Íslandsmeistarar. Helena var í lok tímabils valin í lið ársins í stöðu kants auk þess að vera valin besti leikmaður Úrvalsdeildarinnar af Blaksambandi Íslands.

Hallgrímur Mar átti gott tímabil með KA í Bestu deildinni. Hann var stoðsendingarhæsti leikmaður Bestu deildarinnar með 13 stoðsendingar sem var jöfnun á stoðsendingameti efstu deildar. Í deild, bikar og Evrópukeppni skoraði hann 10 mörk. Hallgrímur Mar var lykilmaður í KA liðinu sem fór alla leið í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar og í bikarúrslit.  Erfitt er að finna félagsmet í meistaraflokki KA í knattspyrnu sem Hallgrímur Mar á ekki en hann er leikjahæsti, stoðsendingahæsti og markahæsti leikmaður KA frá upphafi."

Lið ársins

Við sama tilefni var  mfl kvenna i blaki valið lið ársins  hjá KA en liðið átti hreint út sagt  frábært timabil og vann alla titla sem i boði voru á tímabilinu 2022-23 þ.e. Meistarar meistaranna, deildar-, bikar og Íslandsmeistara. 

Lið ársins hjá KA var hið sigursæla blaklið kvenna.

Þjálfari ársins   

Miguel Mateo Castrillo er þjálfari ársins, hann  hefur náð ótrúlegum árangri sem þjálfari karla- og kvennaliðs KA í blaki. Með stelpunum vann hann alla þá titla sem hægt var að vinna tímabilið 2022-23 er stelpurnar urðu Íslands-, bikar og beildarmeistarar auk þess að hampa titlinum Meistarar meistaranna. Með karlaliðinu vann hann Íslandsmeistaratitilinn auk þess að vinna Meistari meistaranna nú í haust.

Miguel Mateo Castrillo er þjálfari ársins  hjá KA.

Handhafar  Böggubikarsins 2023

Lydía Gunnþórsdóttir handboltakona  og Magnús Dagur Jónatansson handboltamaður eru handhafar  Böggubikarsins fyrir árið 2023.  Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru jákvæð og hvetjandi.

Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. 

Lydía Gunnþórsdóttir KA/Þór  handbolta, handhafi Böggubikarsins 

Magnús Dagur Jónatansson handbolta, handhafi Böggubikarsins

 Byggt á fregn á heimasíðu KA.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast