Miklar endurbætur á gömlu heimavist Þelamerkurskóla í gangi
Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi í Hörgársveit undanfarin misseri sem miða að því að styrkja innviði sveitarfélags þar sem íbúafjölgun hefur verið mikil hin síðari ár. Gagngerar endurbætur standa yfir á gamla heimavistarhúsnæði Þelamerkurskóla og var nú við upphaf skólaárs tekið í notkun nýtt rými þar fyrir unglingadeild skólans. Áður eða í fyrrahaust var enn ein nýja byggingin tekin í notkun við Heilsuleikskólann Álfastein. Þar var horft til framtíðar, pláss er fyrir 90 börn en þau eru kringum 70 um þessar mundir. Stærstu vinnustaðir sveitarfélagsins eru í leik- og grunnskólanum, en þar eru starfsmenn nú samtals 51. Í Hörgársveit búa nú 866 íbúar og er að því stefnt að þeir verði 1001 í það minnsta um mitt ár 2026.