Baráttan sem ætti að sameina okkur
Það liggur þráður í íslensku þjóðarsálinni sem tengir okkur við landið. Okkur þykir vænt um það, við erum stolt af náttúrunni. Þó getur hlaupið snurða á þráðinn þegar samfélögum er stillt upp við vegg og þeim lofað öllu fögru, séu þau tilbúin að fórna náttúrunni. Fólk og fjármunir streymi til viðkvæmra svæða í skiptum fyrir að landi sé sökkt, vatnsfarvegum breytt, vindorkuver reist á sjóndeildarhringnum eða firðir fylltir af fiskeldi. Jafnvel sálir sem elska landið sitt geta látið glepjast, en auðhyggjuöflin sem sjá hvern blett ósnortinnar náttúru sem vannýtt gróðatækifæri hafa hag samfélagsins aldrei að sínu markmiði.