Í upphafi hvers árs er mikið um að vera hjá ferðaþjónustufólki sem kemur saman til að ráðfæra sig við hvert annað, finna nýjar hugmyndir og skapa verðmæti. Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er haldið í Kópavogi og samhliða því er heil vika af spennandi viðburðum með mismunandi áherslum. Þar er meðal annars rætt um tækniþróun, ráðstefnur, sjálfbærni og auðvitað markaðssetningu. Nú eru liðin 11 ár frá því að hugmyndin um Mannamót varð til í einu af mörgum samtölum Markaðsstofanna um hvernig mætti efla íslenska ferðaþjónustu og vinna að dreifingu ferðafólks um landið. Þessi hugmynd um að skapa vettvang fyrir landsbyggðarfyrirtækin til að koma saman í höfuðborginni og eiga þar fundi með ferðaþjónustunni er nú orðin að stærsta kynningarviðburði ferðaþjónustunnar og farin að vekja áhuga erlendra ferðaskrifstofa.