Ófyrirsjáanleg framtíð ferðaþjónustunnar
Stjórnvöld tala oft um mikilvægi fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi. Því miður stendur íslensk ferðaþjónusta frammi fyrir röð ákvarðana stjórnvalda sem ganga gegn þessari umræðu. Greinin stendur á krossgötum: annað hvort sækjum við fram, bætum gæði vöru og þjónustu, styrkjum upplifun gesta og afkomu greinarinnar – eða við förum leið aukinnar skattlagningar sem dregur úr umsvifum og skaðar íslenskt efnahagslíf. Sú leið virðist nú hafa verið valin og að sjálfsögðu fyrirvaralítið. Einnig má minna á að aukin skattprósenta skilar ekki alltaf auknum tekjum, það munu stjórnvöld því miður reka sig á.