Hlíðarfjall- Nýir snjótroðarar
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli fékk í morgun til umráða tvo glænýja og öfluga snjótroðara sem verða komnir á beltin og byrjaðir að troða strax á morgun. Talsvert hefur snjóað síðustu daga og voru snjóhengjur á efstu fjallabrúnum ekki álitlegar.
Snemma í morgun var því gripið til þess ráðs að nota litlar sprengjur til að setja af stað snjóflóð. Fjögur snjóflóð hlupu af stað og var eitt þeirra sýnu stærst eða á að giska 200 metrar á breidd. Vonast er til að þessar aðgerðir dragi mjög úr snjóflóðahættu og auki öryggi skíðafólks til mikilla muna.