Kalt svæði
Við, sem ekki ólumst upp við gæði hitaveitunnar, deilum ýmsum svölum minningum og lífsreynslu sem aðrir skilja ekki. Heitt vatn var takmörkuð auðlind, magnið sem hitadúnkurinn innihélt kólnaði við notkun og tók nokkra klukkutíma að hitna aftur. Það þýddi ekkert fyrir fjölskylduna í Höfða að drolla í sturtunni og líkamsþvottur heimilismanna var skipulagður út í ystu æsar.