Merkilegri saga en ég hefði getað ímyndað mér - segir Óskar Þór Halldórsson, höfundur nýrrar bókar um Akureyrarveikina
„Ástæðan fyrir því að ég réðst í að skrifa þessa bók er fyrst og fremst sú að mér fannst og hefur lengi fundist vanta að segja þessa sögu. Þetta er að mínu mati merkilegur kafli í sögu Akureyrar sem aldrei hefur að fullu verið sagður og jafnframt áhugaverður kafli í sögu heilbrigðismála í landinu. Í gegnum tíðina hef ég í grúski mínu rekist á eitt og annað í tengslum við Akureyrarveikina sem hefur vakið forvitni mína. Fyrir rúmum tveimur árum hugsaði ég sem svo að ef ætti að segja þessa sögu mætti ekki bíða lengur, mikilvægt væri að ná til fólks sem veiktist á sínum tíma og væri enn á meðal vor. Ég hélt því af stað í þessa óvissuför og er núna kominn í höfn. Þetta hefur verið gríðarlega áhugavert og ég hef komist að því að þessi saga er mun merkilegri og teygir anga sína mun víðar en ég hefði getað ímyndað mér,“ segir Óskar Þór Halldórsson um nýja bók sína um Akureyrarveikina.