Danssetrið hlýtur samfélagsstyrk Krónunnar á Norðurlandi

Bjarki Kristjánsson, verslunarstjóri Krónunnar á Akureyri og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnastj…
Bjarki Kristjánsson, verslunarstjóri Krónunnar á Akureyri og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnastjóri sjálfbærnimála hjá Krónunni veittu þeim Örnu Sif Þorgeirsdóttur og Ingunni Elísabetu Hreinsdóttur hjá Danssetrinu styrkinn í verslun Krónunnar á Tryggvabraut.

Krónan hefur nú valið þau fjórtán verkefni sem hljóta samfélagsstyrk frá Krónunni í ár og líkt og fyrri ár eru langflestir styrkhafar staðsettir á landsbyggðinni í nærsamfélagi verslana Krónunnar. Meðal þeirra sem hlutu styrk er Danssetrið á Akureyri fyrir kaupum á búnaði fyrir barnajóga og danskennslu.

Jákvæður hlekkur í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Akureyri

Danssetrið var stofnað árið 2023 og er vettvangur fyrir þau sem vilja kynnast eigin getu og styrkleikum í gegnum hreyfingu. Lögð er áhersla á að sameina hreyfingu, sköpun og sjálfstyrkingu á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Með fjölbreyttu námskeiðsframboði vill Danssetrið skapa rými þar sem börn, ungmenni og fullorðnir geta notið hreyfingar á eigin forsendum, aukið sjálfstraust sitt og fundið gleði í tjáningu.

„Við erum Krónunni afar þakklát fyrir styrkinn sem mun nýtast í námskeiðahald fyrir börn á svæðinu. Danssetrið vill vera jákvæður hlekkur í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Akureyri og nágrenni, sem og lista-og menningarlífi bæjarins. Markmið námskeiða okkar í skapandi dansi og barnajóga er að skapa öruggt, uppbyggilegt og hvetjandi umhverfi þar sem börn á leikskólaaldri fá tækifæri til að njóta hreyfingar á eigin forsendum. Styrkurinn mun nýtast til að fjárfesta í nauðsynlegum búnaði, svo sem dýnum, slæðum og mottum og þökkum við Krónunni kærlega fyrir aðstoðina,“ segir Ingunn Elísabet Hreinsdóttir hjá Danssetrinu.

Áhersla á umhverfisvitund, hollustu og hreyfingu

Krónan hefur frá árinu 2013 veitt samfélagsstyrki en á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á að ýta undir verkefni sem stuðla að umhverfisvitund eða aukinni lýðheilsu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni. Að auki veitir Krónan styrki til kaupa á svokölluðum Bambahúsum sem eru umhverfisvæn gróðurhús sem nýtist einna helst til að rækta grænmeti allt árið um kring, fræða um flest sem við kemur ræktun grænmetis og mikilvægi þess að vita hvaðan einstök matvæli koma.

Frá þessu segir i tilkynningu

 

Nýjast