„Við rennum svolítið blint í sjóinn, þetta er ný aðferð hjá okkur og við vitum auðvitað ekki hvað kemur út úr þessu útboði,“ segir Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi Akureyrarbæjar. Samþykkt hefur verið að leita eftir kauptilboðum í byggingarrétt þriggja lóða fyrir íbúðarhús á svokölluðum Tjaldsvæðisreit. Frestur til að sækja um lóðirnar rennur út á hádegi þann 12. febrúar næstkomandi. Ekki verður hægt að bjóða eingöngu í eina lóð heldur eru þær boðnar út sem ein heild.
Pétur Ingi segir að deiliskipulagi á reitnum sé ekki lokið en hún verður áfram í höndum bæjarins en í samvinnu við þann verktaka sem fær lóðirnar. „Það er einfaldara að vinna með einum aðila í þessu verkefni en ef þeir væru margir. Þess vegna var þessi leið farin,“ segir hann. Lóðirnar sem um ræðir eru við Byggðaveg 102 til 110, Hrafnagilsstræti 20/Þórunnarstræti 95-101 og við Þórunnarstræti 105.
Eitt til fimm stakstæð hús á hverjum reit
Á þeirri fyrst nefndu er gert ráð fyrir fjórum stakstæðum íbúðarhúsum á fjórum hæðum með sameiginlegum bílakjallara. Á þeirri næstu er gert ráð fyrir fimm stakstæðum íbúðarhúsum á fjórum hæðum með sameiginlegum bílakjallara. Á síðast töldu lóðinni er gert ráð fyrir einu stakstæðu íbúðarhúsi á þremur hæðum með 15-17 íbúðum. Miðað er við að í húsinu verði almennar íbúðir sem falla undir ákvæði um hlutdeildarlán eða að íbúðirnar verði seldar sem heild til óhagnaðardrifins félags. Alls verða á lóðinni á bilinu frá 150 til 180 íbúðir.
Lágmarksverð fyrir byggingarrétt lóðanna er samtals rúmlega 295 milljónir króna miðað við janúar 2026, byggingarréttargjald hækkar eða lækkar 1. hvers mánaðar samkvæmt byggingarvísitölu Hagstofu Íslands. Byggingaréttargjald fyrir fyrst töldu lóðina er að lámarki tæplega 137 milljónir, tæplega 131 milljónir frá þá næstu og ríflega 27 milljónir fyrir þá síðast töldu. Pétur Ingi segir að verðið sé miðað við gjaldskrá Akureyrarbæjar.

Reitnum er skipt niður í þrjá hluta og verða á hverjum þeirra frá einum og upp í fimm stakstæð hús.
Spennt að sjá hver áhuginn verður
„Við erum spennt að sjá hvað kemur út úr þessu, en vitum svo sem ekki enn hvernig þessi aðferð virkar, hún er nýjung hjá okkur, en það verður gaman að sjá hver áhuginn verður,“ segir hann.
Miðað er við að forsendur þess deiliskipulags sem hefur verið útfært frá því að ferlið hófst árið 2023 haldist í megindráttum en gert er ráð fyrir að lokaferli deiliskipulags fyrir svæðið verði unnið í samvinnu við þann aðila sem fær lóðunum úthlutað.
