„Það hefur verið vöxtur í ferðaþjónustu á svæðinu, ekki mjög ör en aukning og það er jákvætt. Millilandaflug beint til Akureyrar vegur þungt hvað þann vöxt varðar en fleiri þættir skipta einnig máli. Liðið ár kom alveg þokkaleg út, þrátt fyrir að blikur væru á lofti í byrjun þess og útlitið fyrir nýhafið ár eru ágætar,“ segir Halldór Óli Kjartansson starfandi framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Nú í vikunni hefur staðið yfir stærsti viðburður íslenskrar ferðaþjónustu, Ferðaþjónustuvikan sem lauk með Mannamótum Markaðsstofa landshlutanna í gær, fimmtudag.
Fyrirtæki í ferðaþjónustu á landsbyggðinni hafa á Mannamótum tækifæri til að sýna hvað þau bjóða upp á en m.a. sækir starfsfólk ferðaskrifstofa á höfuðborgarsvæðinu viðburðinn og lítur yfir úrvalið. „Mannamót hafa skilað góðum árangri. Landsbyggðafyrirtækin hafa sýnt mikinn metnað í sinni markaðssetningu. Þó svo að þau séu í samkeppni sýna þau líka samstöðu og hún og sá slagkraftur sem fyrirtækin búa yfir er ávinningur fyrir landið allt,“ segir Halldór Óli en hann stýrir Mannamótum.

Halldór Óli Kjartansson starfandi framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.
Liðið ár gekk þokkalega
Þegar litið er yfir nýliðið ár hvað ferðaþjónustu varðar segir Halldór Óli að það hafi komið þokkaleg út. „Það voru vissulega blikur á lofti í byrjun síðastliðin árs og spár voru á þá leið að bæði Bretar og Bandaríkjamenn myndu draga úr sínum ferðalögum á árinu. Ferðaþjónustu aðilar bjuggu sig undir að sú yrði staðan en þegar upp er staðið kom árið ágætlega út, enda var strax farið í að reyna að sporna við þeirri þróun sem spáð var og reyna við nýja markhópa svo ferðaþjónustan missti ekki of stóran spón úr aski sínum. Það má segja að það hafi gengið furðu vel og okkur tókst að halda sjó,“ segir hann.
Ágætar horfur
„Horfur fyrir árið 2026 eru ágætar og útlit fyrir að ferðamannastraumur á Norðurlandi verði góður yfir sumarmánuðina,“ segir hann. Árstíðasveiflur í ferðaþjónustu eru hins vegar stóra verkefnið sem unnið er að öllum stundum en Halldór Óli segir að eins sé kapp lagt á að ná góðri dreifingu ferðafólk um allan landshlutann. „Það er ágætis dreifing á ferðamönnum um allan landshlutann frá vori og fram á haust en minni yfir veturinn.“
Beint millilandaflug til Akureyrar skipti sköpum fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og leggur sitt lóð á vogarskálar til að draga úr árstíðasveiflum. Nokkur flugfélög eða ferðaskrifstofur koma þar við sögu, flogið er m.a til og frá Zurich í Sviss og Rotterdam í Hollandi og þá hefur breska flugfélagið easyJet flogið frá tveimur borgum í Bretlandi liðin ár, London síðastliðin þrjú ár og Manchester undanfarin tvö ár.
„Það þarf stöðugt að vinna að þessum málum, kynna hvaða möguleikar eru fyrir hendi og hvað er í boði á svæðinu. Sem betur fer virðist það vöruframboð sem til staðar eru hér falla í kramið hjá þeim ferðalöngum sem hafa komið undanfarin ár,“ segir Halldór Óli og nefnir, hvalaskoðun, norðurljós og baðferðir sem dæmi um það sem ferðafólk sækir í.
Höldum ótrauð áfram
Heimafólk hefur einnig í talsverðum mæli nýtt sér það beina flug sem í boði er frá Akureyri, bæði til að heimsækja þá staði sem flogið er og eins sem tengiflug út um heim. „Það er okkur mikilvægt að hafa þessa gátt til og frá landinu. Við erum öllum stundum í virku samtali við fleiri aðila til að bæta við nýjum félögum og öðrum áfangastöðum. Þetta er mikil vinna og stundum ber hún árangur, en vissulega gengur ekki allt upp. Það tók meira áratug að koma á laggirnar Flugþróunarsjóði og virkja samstarf við Isavia sem er forsenda þess að við séum samkeppnishæfur áfangastaður. Sveitarfélög, samtök þeirra, fyrirtæki á svæðinu og öflugir einstaklingar hafa verið með okkur í liði í þessum málaflokk og við höldum alltaf ótrauð áfram með samstarfið að vopni.

Fjölmargir ferðamenn á Norðurlandi fara í hvalaskoðun.
Helsta samkeppnin frá öðrum norðlægum slóðum
Önnur lönd í norðanverðri Evrópu eru okkar helstu samkeppnislönd að sögn Halldórs Óla og er vel fylgst með hvað verið er að gera þar. „Við berum okkur saman við þessar norðlægu slóðir, það má segja að við séum að keppa um sama markhópinn og því mikilvægt að sjá hvað aðrir á svipuðum slóðum eru að gera, hvert straumurinn liggur og hvað við þurfum að gera til að halda okkar stöðu.“
Öflugt markaðsstarf sé lykilþáttur í því að ferðaþjónustan, stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar geti haldið áfram að vaxa og dafna. „Í samkeppni við önnur lönd og önnur svæði á Norðurslóðum er mikilvægt að halda því á lofti sem gerir Ísland að einstökum áfangastað. Tækifæri eru til staðar í vetrarferðaþjónustu um allt land til að nýta betur þá fjárfestingu sem bæði hið opinbera og einkageirinn hafa ráðist í á undanförnum árum. Þannig eykst verðmætasköpun allan ársins hring,“ segir hann og bætir við að til að enn betri árangur næðist væri mikilvægt að stjórnvöld legðu meiri áherslu á að kynna Ísland á erlendum mörkuðum.

Íslenski hesturinn heillar marga ferðalanga
Mikil aukning gistirýma
Talsverð uppbygging hefur orðið undanfarin misseri hvað gistirými varðar og ýmislegt í farvatninu. Nú í vor verður fyrsta alþjóðlega hótelið Skáld Hótel Akureyrar, á vegum Hilton keðjunnar opnað á Akureyri, en það er staðsett við Hafnarstræti 80 til 82. Þar verða herbergi og íbúðir, 81 í allt.
Hótel er í byggingu við Skógarböðin en þar verða 120 herbergi. Áætluð verklok eru seint á næsta ári.
Undanfarin tvö ár hafa bæst um 80 ný herbergi við á Hótel Akureyrar, þannig að þar eru nú í boði 140 herbergi og svítur auk þess sem ný móttaka, bar, setustofa og veitingastaður voru opnuð. Á liðnu hausti voru opnuð 17 tveggja manna herbergi, Bryggjan Boutique Hotel við Strandgötu og loks má nefna að einnig er verið að fjölga gistirýmum í nágrenni Akureyrar og víða um Norðurland.
„Öll þessi uppbygging mun til framtíðar leiða til aukins ferðamannastraums inn á svæðið en fyrirtækin sem að þeim standa munu örugglega leggja sig fram um að nýta sína fjárfestingu sem allra best,“ segir Halldór Óli.

Vitinn á Svalbarðsströnd á fallegu vetrarkvöldi