Hugurinn og hjartað er hjá börnum á Gaza

Ragnheiður Steindórsdóttir stjórnarmaður í Vonarbrú fékk heilablóðfall á Spáni milli jóla og nýjárs.…
Ragnheiður Steindórsdóttir stjórnarmaður í Vonarbrú fékk heilablóðfall á Spáni milli jóla og nýjárs. Hún verður frá störfum á meðan endurhæfing stendur yfir en heitir á fólk að styðja félagið

Ragnheiður Steindórsdóttir stjórnarmaður í Vonarbrú fékk heilablóðfall á Spáni. Biðlar til fólks að styrkja félagið.

„Þetta sýnir best að hugur hennar og hjarta er hjá börnunum á Gaza,“ segir Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur í Sigluvík á Svalbarðsströnd sem ásamt eiginmanni sínum Birgi Haukssyni og Ragnheiði Steindórsdóttur eru í stjórn Vonarbrúar. Kristín vísar til þess að Ragnheiður fékk heilablóðfall í gönguferð á Spáni milli jóla og nýjárs. Hún lá á sjúkrahúsi í Malaga en var flutt heim til Íslands í vikunni þar sem fram undan er endurhæfing.

Ragnheiður náði á ótrúlegan hátt að bjarga sér, vakti athygli íbúa á svæðinu og fékk hjálp, en hún var ein á ferðinni þegar hún missti máttinn. Ragnheiður hefur látið sig varða málefni Palestínu varða og verið öflug í starfsemi Vonarbrúar frá því félagið var stofnað á páskadag, 20. apríl í fyrra.

Ragnheiður og Kristín styðja við þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni í fyrrasumar.

Kristín segir að samvinna þeirra Ragnheiðar hafi verð dýrmæt og góð það ár sem liðið er frá stofnun Vonarbrúar. „Þegar við hjónin ákváðum að stofna almennaheillafélagið Vonarbrú leituðum við til Ragnheiðar og báðum hana að koma með okkur í stjórn. Það var auðsótt mál og samstaf okkar hefur verið farsælt.“

Hetjudáð

Þegar Ragnheiður fékk heilablóðfallið var stjórnarfundur í Vonarbrú að hefjast með myndsímtali og segir Kristín að samvinnan hafi náð nýjum hæðum og vináttan dýpkað á meðan beðið var eftir sjúkrabíl. „Hún vann svo sannarlega hetjudáð þennan dag með aðdáunarverðri yfirvegun og rósemd, það var með ólíkindum,“ segir hún.

Ragnheiður greindi frá heilablóðfallinu fyrr í vikunni og kom þar fram að það myndi gleðja hana ef Vonarbrú fengi góð fjárframlög næstu vikurnar til að bæta upp fjarveru hennar, en eðlilega getur hún ekki sinnt því ómetanlega starfi við aðstoða barnafjölskyldna á Gaza meðan á endurhæfingu stendur.

„Ragnheiður var í persónulegu sambandi við fjölda fjölskyldna og veitti þeim mikla aðstoð, félags- og fjárhagslegan stuðning,“ segir Kristín.

Tugmilljónir hafa safnast

Tugir milljóna króna hafa safnast frá því starfsemin hófst og hefur allt runnið til stríðshrjáðra barnafjölskyldna. Kristín nefnir að áheit í Reykjavíkurmaraþoni á liðnu sumri hafi skilað um 5 milljónum króna. Grunnskólabörn í Hveragerði afhentu Vonarbrú 2 milljónir skömmu fyrir jól sem var afrakstur af góðgerðardegi í skólanum. „Við finnum mikinn velvilja í okkar garð og það er ómetanlegt,“ segir Kristín.

Helga Maren, yngsti nemandi skólans ásamt móður sinni - Matthea aðstoðarskólastjóri - Ragnheiður Steinsdórsdóttir frá Vonarbrú - Björgey, formaður nemendaráðs - Sævar Þór skólastjóri

Þeir sem vilja styrkja Vonarbrú geta lagt inn á þennan reikning: 0565-26-006379. Aur: @Vonarbru.

Nýjast