„Mjög dýrmætt að raddir kvennanna sjálfra heyrist“

Zuzana Macuchova frá Svíþjóð, Lisa Knatterud Wold og Deniz Akin frá Noregi með Mörtu á ferð um Norðu…
Zuzana Macuchova frá Svíþjóð, Lisa Knatterud Wold og Deniz Akin frá Noregi með Mörtu á ferð um Norðurlandið Myndir unak.is

Gagnaöflun er nú lokið í samnorræna rannsóknarverkefninu Enhancing labour opportunities for Ukrainian women in rural Nordic communities, sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri leiðir. Verkefnið beinist að stöðu úkraínskra flóttakvenna á vinnumarkaði í dreifðari byggðum á Norðurlöndum. Að sögn Sæunnar Gísladóttur, sérfræðings hjá RHA, hefur verkefnið verið bæði lærdómsríkt og gefandi. Sæunn hefur unnið að verkefninu ásamt Mörtu Einarsdóttur, sérfræðingi hjá RHA.

„Kveikjuna að verkefninu má rekja aftur til loka ársins 2022,“ segir Sæunn. „Þá var haft samband við Hjalta kollega okkar um að tengja RHA við tvo samstarfsskóla, Østlandsforskning við Høgskolen i Innlandet í Noregi og Dalarna háskóla í Svíþjóð, vegna umsóknar í norrænan sjóð.“

Umsóknin hlaut ekki styrk þá en samstarfið hélt engu að síður áfram og árið 2024 hlaut nýtt verkefni hjá þessum samstarfsskólum styrk. „Samvinnan gekk afar vel þegar við sóttum fyrst um og þegar auglýst var eftir umsóknum í NIKK, norræna jafnréttissjóðinn, ákváðum við að þróa hugmyndina og einblína sérstaklega á úkraínskar konur á norrænum vinnumarkaði í styrkumsókninni sem varð til þess að styrkur hlaust.“

Skýr mynd af stöðu hópsins á Akureyri

Gagnaöflun á Íslandi byggði á eigindlegri aðferð.

„Við tókum annars vegar sérfræðiviðtöl við fólk sem vinnur náið með flóttafólki, til dæmis starfsfólk Akureyrarbæjar, Rauða krossins, SÍMEYjar og Vinnumálastofnunar,“ útskýrir Sæunn. „Hins vegar tókum við viðtöl við úkraínskar konur sem höfðu flúið til Íslands eftir innrás Rússa í febrúar 2022 og höfðu dvalið hér í að minnsta kosti eitt ár.“

Konunum var boðið að taka þátt á mismunandi hátt. „Annars vegar voru einstaklingsviðtöl í boði, á íslensku og ensku, og hins vegar rýnihópsviðtal á úkraínsku og rússnesku með aðstoð túlks,“ segir hún. „Við fengum þrjár konur í einstaklingsviðtöl og fimm í rýnihóp. Það er vissulega fyrirvari á, því að hópurinn er ekki stór. Upplýsingarnar sem komu fram eru engu að síður mjög dýrmætar og við teljum að niðurstöðurnar dragi upp skýra mynd af stöðu úkraínskra flóttakvenna á Akureyri.“


Í heimsókn á Siglufirði Í upphafi NIKK verkefnis

Gögnum var einnig safnað í Noregi og Svíþjóð, en þó með aðeins ólíkri útfærslu. „Það var ekki nákvæmlega sama aðferðafræði í öllum löndum en niðurstöður gefa okkur samt mikilvægan grunn til samanburðar.“

Gæfuríkt fyrir öll að tækifæri séu til staðar fyrir flóttafólk

Aðspurð um mikilvægi rannsóknarinnar segir Sæunn úkraínskar flóttakonur vera sérstæðan hóp. „Þær eru oft í erfiðri stöðu þar sem margar eru einar á flótta með börn vegna herskyldu maka, þó að það eigi síður við hér á Íslandi en víða annars staðar.“

Hún bendir jafnframt á að viðhorf til hópsins hafi verið jákvæð. „Rannsóknir hafa sýnt að úkraínskar konur hafa notið ákveðinnar velvildar í Evrópu og sums staðar fengið góðan stuðning hvað varðar aðgang að vinnumarkaði og dvalarleyfi. Okkur þótti því áhugavert að skoða hvernig aðgangur þeirra hefur verið að norrænum vinnumarkaði, sérstaklega í dreifðari byggðum.“

„Í slíkum byggðum eru ekki endilega mörg störf í boði á ensku eða í ferðaþjónustu,“ bætir hún við. „Í ljósi þess hversu mörg hafa flúið til Íslands er lykilatriði að skilja hvernig þeim hefur vegnað á vinnumarkaði og hvernig megi styðja betur við þennan hóp svo hann fái tækifæri til að blómstra og miðla sinni ríku þekkingu.“

Samvinna styrkir hönnun og framkvæmd

Samstarfið við samstarfsaðila hefur verið mikilvægur þáttur verkefnisins. „Það hefur verið mjög gefandi að vinna í þessu verkefni,“ segir Sæunn. „Við höfum nýtt ferðastyrki til að hittast bæði í Lillehammer í Noregi og hér á Íslandi, á Akureyri og Siglufirði. Þannig höfum við byggt upp góð tengsl og stillt saman strengi sem rannsakendur.“


Deniz Akin og Lisa Knatterud Wold frá Noregi, Marta Einarsdóttir og Zuzana Macuchova frá Svíþjóð fyrir framan HA

Hún segir reynslu samstarfsaðila hafa skipt miklu máli. „Samstarfsfólk okkar er mjög reynslumikið á fjölbreyttum sviðum og það hefur verið dýrmætt að nýta þá þekkingu bæði við hugmyndavinnu, hönnun og framkvæmd rannsóknarinnar. Samskipti hafa gengið afar vel og við höfum óspart nýtt okkur fjarfundatæknina.“

Fjölþjóðleg sjónarhorn styrkja niðurstöðurnar

Næstu skref verkefnisins snúa að úrvinnslu og miðlun niðurstaðna. „Lokaafurðin verður skýrsla sem við stefnum á að birta á næstu mánuðum,“ segir Sæunn. „Samvinnuaðilar vinna hana saman en í skýrslunni verða sérkaflar um hvert land auk samandreginna niðurstaðna.“

„Þá er afar verðmætt að niðurstöðurnar einskorðist ekki við eitt land heldur bjóði upp á samanburð milli landa,“ bætir hún við. „Þannig geta löndin lært hvert af öðru um hvernig best sé að taka á móti flóttafólki og styðja það til þátttöku á vinnumarkaði sem er eitthvað sem við munum öll njóta góðs af til lengri tíma.“

Að lokum segir Sæunn að virði samvinnuverkefna sem þessa sé ótvírætt. „Virðið felst fyrst og fremst í því að fá margþætt og fjölþjóðleg sjónarhorn að borðinu. Það leiðir af sér sterkari og faglegri rannsókn en ella.“

 

Nýjast