Vel tekið á móti nemendum í Sjávarútvegsskóla GRÓ sjötta árið í röð
„Við höfum verið með árlegt fjögurra mánaða námskeið fyrir félaga í Sjávarútvegsskóla GRÓ frá árinu 2021. Þetta hefur gengið mjög vel og það er nemendum mjög mikilvæg nálægðin sem Akureyri býður upp þegar kemur að fiskveiðum og stjórnun þeirra ásamt allri þjónustu, hér er allt sem þarf til staðar og það er stutt í allt. Dagskráin er fjölbreytt og við erum mörg frá HA sem komum að kennslunni. Það er líka afar mikilvægt fyrir okkur að Fiskistofa er á sama stað. Með því læra þau hvernig gera má veiðar arðbærar og sjálfbærar og hvernig samfélag hefur sem mestan hag af veiðunum og vinnslunni.“ Segir Hreiðar Þór Valtýsson sem er umsjónarmaður GRÓ á Akureyri.
Í ár eru 8 stúdentar sem sækja skólann sem er hýstur í HA. Þau koma frá Jamaíku, Panama, Sankti Vinsent og Grenadíum, Indónesíu, Sólómón eyjum, Ghana og Papúa Nýju-Gíneu.
Hópurinn mun fræðast um íslenskan sjávarútveg, þar sem námið sameinar fræðilega kennslu og vettvangsnám. Auk þess að sitja kennslustundir tekur nemendahópurinn þátt í fjölbreyttum heimsóknum til sjávarútvegsfyrirtækja á Norðurlandi. Kennslan á Akureyri byggir að miklu leyti á upplifun og virkum þátttökuaðferðum; meðal annars munu þátttakendur fara í sjóferð og veiða fisk sem þeir rannsaka, vinna, elda og borða svo að lokum. Með þessari nálgun fá nemendur heildstæða innsýn í virðiskeðju sjávarútvegsins og tengsl fræða og framkvæmdar.
Um Sjávarútvegsskóla GRÓ
Háskólinn á Akureyri hefur verið virkur þátttakandi í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna frá upphafi hans árið 1998. Skólinn er nú nefndur Sjávarútvegsskóli GRÓ - eftir að hann var fluttur undir GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta- vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna.
GRÓ er mikilvægur þáttur í alþjóðasamstarfinu og eflir tengslanet HA um allan heim.