Ár frá sveitarstjórnarkosningum

Hjálmar Bogi Hafliðason  skrifar

hjaææ

Seta í sveitarstjórn er fjölbreytt starf, bæði krefjandi og spennandi. Sveitarfélög bera ábyrgð á margþættum verkefnum samfélagsins. Kjörinn fulltrúi þarf að hafa skoðun og taka afstöðu til fjölbreytilegra mála. Einstaklingur sem sest í sveitarstjórn er ekki sérfræðingur í málefnum sveitarfélagsins heldur leikmaður og fulltrúi íbúa. Það er skylda sveitarstjórnarfulltrúa að leitast við að taka afstöðu til mála út frá mati á heildarhagsmunum.

Hlutverk kjörinna fulltrúa er að móta stefnu um starfsemi og rekstur sveitarfélagsins og framþróun þess. Sömuleiðis að hafa eftirlit með að stefnunni sé fylgt. Þá þarf að; forgangsraða fjármunum og mannafla, taka á álitaefnum sem upp koma, hafa samráð og skipuleggja ákvörðunarferla. Já, það getur verið kúnst að endurspegla sem best vilja íbúa. Hagsmunir og skoðanir eru margvíslegar.

Samstarf og gagnrýni

Nú er ár liðið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynduðu nýjan meirihluta í sveitarstjórn Norðurþings. Samstarfið hefur verið farsælt og markmið að iðka samvinnu meðal allra kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn, nefndum og ráðum. Það er mikilvægt að veita gagnrýnið og uppbyggilegt aðhald.

Krefjandi verkefni kjörinna fulltrúa

Samfélagsins bíða mörg krefjandi verkefni. Það er brýnt að skapa tekjur til að standa undir velferðinni. Um leið að rýna í reksturinn. Tekjur hafa aukist í Norðurþingi undanfarin ár. Launakostnaður sömuleiðis og þarf að finna leiðir til að draga úr launakostnaði og auka skilvirkni. Viðhalda þjónustu án þess að auka álögur á einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Spyrjum okkur ávallt; hvernig við tökum á móti fyrirtækjum, hugmyndum og íbúum sem vilja byggja upp, dafna og blómstra í okkar sveitarfélagi?

Uppbygging hjúkrunarheimilis á Húsavík, sem er samstarfsverkefni í Norðurþings, Tjörneshrepps og Þingeyjarsveitar, verður stærsta verkefnið og við höfum náð skynsamlegri lendingu fyrir hönd sveitarfélaganna. Við þurfum að efla og treysta byggð í Kelduhverfi, Öxarfirði og Sléttu sem og á þéttbýlisstöðunum Kópaskeri og Raufarhöfn sem brothættar byggðir. Við höfum kallað eftir aðkomu ríkisvaldsins við það verkefni með okkur. Í svæðinu felast ótal tækifæri. Úrbætur í frístunda- og félagsmiðstöðvarþjónustu á Húsavík er öllum ljós og afar brýnt að hefja framkvæmdir í samræmi við skipulag.

Við erum í samtali við Landsvirkjun um vindrannsóknir austan Húsavíkurfjalls. Áfram er unnið að vindrannsóknum á Hólaheiði í samstarfi við Qair Iceland. Við erum að kortleggja framvindu vegna Grænna iðngarða á Bakka. Það er mikilvægt að halda áfram þeirri uppbyggingu sem þar er hafin með nýtingu orku og tekjuöflunar. Ýmsar hugmyndir eru uppi um fjárfestingu í gistiþjónustu. Ein undirstaðan fyrir eflingu og framþróunar svæðisins er nýting Húsavíkurhafnar, bæði nýframkvæmdir og viðhald.

Samtal við íbúa

Vinna við aðalskipulag fyrir sveitarfélagið er hafin. Gildandi aðalskipulag gildir til ársins 2030 en margt hefur breyst á skömmum tíma eða síðan það var samþykkt árið 2010. Vinna við gerð aðalskipulags kallar á aðkomu íbúa og því má gera ráð fyrir íbúasamráði. Að því sögðu þá er mikilvægt að iðka íbúasamráð; að eiga samtal við íbúa og fyrirtæki. Haldnir hafa verið íbúafundir vegna Grænna iðngarða, sorpmála, atvinnuuppbyggingar, Mærudaga, málefni einstakra byggðalaga og samfélaga o.fl. Til stendur að halda áfram samtali við samfélagið. Ég tel að leið íbúa til að nálgast okkur, kjörnu fulltrúana, sé bæði bein og greið. Þá er yfirvegun og réttar boðleiðir mikilvægar.

Breytingar

Unnið er að gerð nýrrar heimasíðu, sveitarstjórnarfundir eru nú aðgengilegir í bæði hljóði og mynd. Búið er að breyta skipuriti sveitarfélagsins til að efla og styrkja stjórnsýsluna og skýra reglur um ábyrgðarmörk stjórnenda og kjörinna fulltrúa. Það er ótal fréttir af málefnum sveitarfélagsins á heimsíðu þess og hvet ég íbúa til að fylgjast með. Uppbygging íbúðarhúsnæðis er aðkallandi þáttur í vexti samfélagsins. Bæði Bjarg íbúðarfélag og Bríet leigufélag hyggjast reisa íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Þá hafa áhugasamir aðilar lýst áhuga á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á nýjum svæðum sem þarf að vinna að.

Það er ástæða til bjartsýni, efla enn frekar samstöðu og samvinnu á svæðinu. Huga að þeim tækifærum sem við búum yfir og sýna dug til að nýta þau. Það gerum við með heildarhagsmuni í huga þannig að öll njóti. Þetta er undir okkur sjálfum komið.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings


Athugasemdir

Nýjast