13. júlí, 2025 - 22:30
Heiðrún E. Jónsdóttir
Heiðrún E Jónsdóttir átti Lokaorðið i blaðinu s.l fimmtudag
-Þarf ekki að kosta augun úr að hlaða batteríin
Eðlilega er tilhlökkun að brjóta upp hversdaginn og njóta sumarfrís með sínum nánustu. Stundum er búið að spenna upp væntingar þannig að margir upplifa vonbrigði og pirring frekar en að ná að hlaða batteríin og fylla minningarbankann af góðum og glöðum minningum.
En svo eldist maður og þroskast.
Ég reyni að verja sumarfríinu á Íslandi, en hef einstaka sinnum bugast á rigningu og súld og farið upp í flugvél til að finna sól. Almennt kýs ég þó að fara frekar erlendis á vorin eða haustin en ekki yfir hásumarið. Það er einfaldlega ekkert sem toppar björtu, kyrru, íslensku sumarnæturnar.
Ég hef litla nennu að dvelja langdvölum á almennum tjaldstæðum, kýs frekar að fara á staði sem eru fámennari t.d. Flateyjardal við Skjálfanda, Hornstrandir eða Ófeigsfjörð á Ströndum. Þetta eru algjörar perlur í góðu og heiðarlegu íslensku sumarveðri. En þegar íslenska veðrið leikur ekki við mann, þá hefur maður skilning á því hvers vegna þessir staðir fóru í eyði. Raunar undravert að forfeður og –mæður hafi náð að halda velli á þessum svæðum yfir verstu vetrarmánuðina.
Íslenska sveitin
Ég á mér þó nokkra uppáhaldsstaði, margir þeirra eðlilega í Þingeyjarsýslu og á Norðurlandi En um allt land eru perlur, íslenska sveitin, þar sem hægt er að hlaða batteríin, og yfirleitt þarf ekki að fara langt yfir skammt.
Við þekkjum það vel að það kostar sitt að vera í fríi með alla fjölskylduna, og ekki bara erlendis heldur einnig hér á landi. Og það þarf ekki að kosta augun úr að hlaða batteríin.
Skorradalurinn
Skorradalurinn er dæmi um stað þar sem vel er hægt að hlaða batterí. Ég fer reglulega, mætti vera oftar, á hjóli í kringum Skorradalsvatn, sem er um 42 km ferð. Leiðin er afar fjölbreytt, ýmist hjólað á malbiki, malarvegi, sandi eða illfærum slóðum. Oft legg ég af stað í þungbúnu veðri eða í rigningu en enda í sólskini. Ferðalagið er því aðeins eins og lífsins ganga, oftast greiðfært, stundum illfært en aldrei ófært. Stundum er þungbúið en að endingu mun sólin ná að brjóta sér leið í gegnum skýin.
Frá Skorradal
Hólar, hálsar, tindar, fell eða fjöll
Alls staðar í kringum landið er hægt að finna hóla, hálsa, tinda, fell eða fjöll til að ganga á. Mæli með því að hlusta eingöngu á náttúruna og gefa síbyljunni og símanum smá frí. Það er ótrúlega nærandi að hlusta á fuglana eða hlusta jafnvel bara á þögnina. Það þarf ekki endilega að fara á hæstu tindana eða setja tímamet. Setjast niður og gefa sér tíma til að horfa í kringum sig. Ekki er verra að vera í góðum félagsskap, helst með börnum, því ferðalagið er eins og lífið sjálft, það verður allt betra og skemmtilegra með sína nánustu sér við hlið.
