Kveldúlfur, ný tónlistarhátíð á Hjalteyri

Ný tónlistarhátíð, Kveldúlfur verður haldin á Hjalteyri á morgun laugardag.
Ný tónlistarhátíð, Kveldúlfur verður haldin á Hjalteyri á morgun laugardag.

Kveldúlfur er ný tónlistarhátíð sem verður haldin á Hjalteyri á morgun laugdaginn 12. júlí. Skipuleggjendur hátíðarinnar eru þau Sara Bjarnason verkefnastjóri og Vikar Mar bóndi á Ytri Bakka og listmálari.

„Á Hjalteyri er öflugt listalíf og við sem stöndum að hátíðinni viljum efla það enn frekar með þessu framtaki,“ segir Sara. Fjöldi tónlistamanna kemur fram, Júníus Meyvant, Kött Grá Pje, Lúpína, Katla Vigdís og Skúli mennski. Kött Grá Pje, eða Atli Sigþórsson, er Akureyringur og hefur sterka tengingu við Hjalteyri þar sem móðir hans á litla verbúð sem hann sækir í reglulega til að stilla sig af.

Kjöraðstæður

Sara segir Hjalteyri hentar einkar vel til viðburðahalds og ekki spurning að þar sé gott að efna til tónlistarhátíðar. „Þessi mikla menning sem þar þrífst, hráar verksmiðjurnar, þetta fallega bæjarstæði og landfræðileg lega Hjalteyrar mynda saman kjöraðstæður til viðburðahalds. Fjarlægðin frá bæði Akureyri og Dalvík er álíka löng og fyrir Kópavogsbúa sem sækja tónleika í miðborg Reykjavíkur. Stutt skrepp,“ segir hún.

Sara Bjarnason verkefnastjóri 

 Árleg hátíð ef vel tekst til

Ef vel tekst til og heimafólk verður ánægt með framtakið segir hún að stefnt sé að því að gera Kveldúlf að árlegum viðburði. „Það skiptir okkur höfuðmáli að vinna þetta af virðingu við byggðina í kring og höfum þess vegna boðið Hjalteyringum frímiða á hátíðina,“ segir Sara.

Á hátíðinni verður ávaxta- og grænmetismarkaður, opnar vinnustofur listafólks, möguleiki á að fá sér húðflúr á staðnum, varðeldur og ýmislegt fleira. Miðasala er í fullum gangi en afar takmarkaður fjöldi er í boði á þennan menningarviðburð.

Miðasala fer fram á tix.is

 

Vikar Mar bóndi á Ytri Bakka og listmálari

Nýjast