Gróf mismunun í heilbrigðiskerfinu

Vilborg Gunnarsdótir skrifar
Vilborg Gunnarsdótir skrifar

Við Íslendingar búum við gott heilbrigðiskerfi og erum flest sammála um að þar eigi jafnt yfir alla að ganga óháð til dæmis efnahag. Í flestum tilfellum þurfum við að greiða lágmarks gjöld fyrir komu á heilsugæslu og svo eru lyfin okkar líka niðurgreidd.

Börn og eldra fólk greiða lægri gjöld en aðrir og þykir flestum það sjálfsagt mál. En þegar aldurinn færist yfir eykst þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu. Í boði er að þiggja aðstoð heima; heimahjúkrun þar sem gefin eru lyf, skipt á umbúðum og þess háttar. Þá er veitt þjónustu frá sveitarfélögum svo sem heitur mat heim, innlit og aðstoð við ýmsar athafnir daglegs lífs. Þessi þjónusta er ekki kostnaðarsöm fyrir þann sem hennar nýtur og er nú í auknum mæli veitt af einni hendi sem er mikill kostur fyrir þann sem þjónustuna þiggur. Komur til heimilislækna og sérfræðinga verða ódýrari og eldra fólk fær niðurgreiddar tannlækningar að einhverju marki.

Þegar einstaklingur getur alls ekki búið lengur heima vegna heilsufars er næsta skref að flytjast á hjúkrunarheimili. Það er næsta „heimili“ einstaklingsins. En þá þarf allt í einu að borga heilbrigðiþjónustuna upp í topp og fullt gjald fyrir einn sólarhring á hjúkrunarheimili er nálægt kr. 475.000 á mánuði hjá þeim sem greiða mest. Raunverulegur kostnaður er meiri en ríkið niðurgreiðir restina. Þá skal taka fram að þótt það séu hjúkrunarheimilin sem innheimta, eru það Sjúkratryggingar sem ákvarða gjaldið.

Reka heimilið á „hálfum“ tekjum

Á hjúkrunarheimilum búa fleiri en þeir sem eru þar vegna aldurs og aldurstengdra þátta sem gerir þá ekki færa um að búa lengur einir. Þarna býr líka fólk sem frekar ungt getur vegna ýmissa sjúkdóma og/eða afleiðinga slysa, ekki búið eitt. Viðkomandi á kannski maka sem býr þá heima og rekur það heimili fyrir sama gjald og áður en makinn fór á hjúkrunarheimili. En heimilið missir þarna nánast allar tekjur makans því þær renna til hjúkrunarheimilisins. Á þessum heimilum búa jafnvel enn börn sem ekki eru flutt að heiman. Þarna er fólk farið að greiða heilbrigðisþjónustuna til fulls því leiga á einu herbergi ásamt fæði myndi örugglega ekki kosta tæplega hálfa milljón annars staðar. Þá er líklegt að þessir einstaklingar „búi“ lengur á hjúkrunarheimilum en þeir sem eldri eru.

Og enn og aftur erum við þarna með hóp sem hefur lítið þrek til að berjast fyrir réttlæti auk þess sem erfitt getur verið fyrir aðstandanda að „kvarta“ undan útgjöldum vegna langveiks maka.

Ég hef all oft talað við fólk í þessari stöðu. Það veigrar sér við að hafa hátt um hvað því finnst um þetta fyrirkomulag. Nægt er álagið fyrir því það fylgir því oft mikil streita að annast veikan maka þar sem hlutverkin hafa breyst.

Ég reikna ekki með að þetta greinarkorn muni hafa nokkur áhrif í umræðunni en finnst þó rétt að vekja á þessu athygli.

Höfundur er áhugamaður um almenna velferð.

Nýjast