Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Júlí Ósk Antonsdóttir, lektor við Lagadeild, er vísindamanneskja júlímánaðar.
Leiðin frá Ólafsfirði í lektorsstöðuna
Júlí Ósk er fædd og uppalin í Ólafsfirði og að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2003 flutti hún alfarið í bæinn og hóf nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri (HA) – reyndar í fyrsta árgangi laganema við skólann. Árið 2011 opnaði hún lögmannsstofu á Akureyri eftir að hafa öðlast réttindi til málflutnings.
„Þegar ég lauk grunnskóla þá velti ég fyrir mér að gerast annað hvort flugfreyja eða lögfræðingur, en lögfræðin kallaði svo sífellt meira á mig svo ég endaði á að fara í hana eftir stúdentsprófið,“ segir Júlí og bætir við að það hafi aldrei hvarflað að henni að hún myndi enda sem lektor við HA. „Mér var boðin stundakennsla við Lagadeildina haustið 2011 og þá kom í ljós að kennsla átti svo ótrúlega vel við mig og ég var beðin um að taka að mér fleiri námskeið og hér er ég enn, sem lektor í fullu starfi við deildina.“
Júlí rekur lögmannsstofuna samhliða kennslunni. „Það hentar mjög vel að sinna kennslu og lögmennsku samhliða, ég held það geri mig betri á báðum stöðum. Það er oft ansi mikið að gera og dagskráin oft á tíðum þung, en ég tel praktísku reynsluna nýtast mér vel sem kennara og ég tel mig betri lögmann því ég er alltaf fersk í fræðunum.“
Umræðutímarnir öflugt og gagnvirkt kennslutæki
Við Lagadeild HA kennir Júlí fjölbreytt úrval námskeiða, meðal annars barna-, sifja- og erfðarétt og gjaldþrotahluta í fullnusturéttarfari þar sem reynslan úr lögmennskunni kemur að góðum notum. Hún kennir líka inngang að íslenskri lögfræði sem hún segir skemmtilega og góða endurmenntun í grunngreinum lögfræðinnar.
„Þá kenni ég líka lagalega hlutann varðandi kynbundið ofbeldi inni í námskeiðinu ofbeldi og valdatengsl í lögreglufræðinni og er að fara að kenna lítið námskeið um kynbundið ofbeldi á meistarastigi í lögfræði núna í haust. Ég vona að það námskeið fái að festast í sessi og verða stærra, enda engin vanþörf á að fara almennilega yfir jafn mikilvægt málefni.“
Júlí sér tækifæri í því að efla námið enn frekar og að stúdentar geti helgað sig náminu af fullum krafti en það er mjög algengt að þeir sinni mikilli vinnu með námi. „Mér finnst umræður í tímum það skemmtilegasta við kennsluna,“ segir hún brosandi og bætir við: „Það er svo ótrúlega magnað að skoða fræðin út frá sjónarhorni og vangaveltum stúdenta og um leið miðla minni þekkingu og reynslu með þeim. Stundum væri ég til í að stúdentar nýttu sér umræðutímana meira enda mikið virði í að læra af hverju öðru í gegnum þá.“
Nýtir rannsóknir í tengslum við kynbundið ofbeldi
„Ég er mest að sinna rannsóknum í tengslum við kynbundið ofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðisbrot og réttarstöðu þolenda. Ég hef einnig verið að vinna að rannsóknum á sviði fjölskylduréttar, svo sem réttindum barna, forsjármálum, skilnuðum, sambúðarslitum og slíku,“ segir Júlí um sitt rannsóknarsvið og hún sinnir þessum málaflokkum einnig sem lögmaður. „Það gerir það að verkum að ég þekki þetta vel bæði fræðilega og praktískt. Það eru forréttindi að fá að starfa við það sem ég brenn fyrir, þó að starfið geti oft og tíðum verið mjög krefjandi.“
Aðspurð hvað þurfi að rannsaka frekar og beina sjónum að segir Júlí: „Það vantar vitundarvakningu um alvarleika og áhrif ofbeldis í nánum samböndum. Það þarf að byggja upp kerfi sem grípur þolendur almennilega, hjálpar þeim út úr aðstæðum og styður við þá í bataferlinu og nýta til þess niðurstöður rannsókna. Það þarf fleiri rannsóknir sem ná utan um ofbeldi í nánum samböndum og hvaða úrræði styðja við þolendur þess.“
Sögulega léleg í íþróttum
Þegar Júlí situr ekki við skrifborð, kennslu eða málflutning má gjarnan finna hana á gönguskíðum, í göngutúr eða í bandý. Allt þetta þrátt fyrir að segjast hafa verið það sögulega léleg í íþróttum í grunnskóla að hún var send í aukatíma í þeim.
„Ég er mikil félagsvera og ég hef gaman af því að verja tíma með fjölskyldu, vinum eða kunningjum. Þá finnst mér ferðalög einstaklega skemmtileg, hvort sem er innanlands eða erlendis,” segir Júlí sem við kveðjum þar sem hún gæti líka verið á leiðinni á kaffihús, kannski til að hitta vini eða til að setjast niður með góða bók.
Júlí og dóttir hennar í léttri fjallgöngu upp á Haus
Júlí og dóttir hennar á kayak í Tjarnargerði Eyjafirði