Býður þú alheiminum með þér upp í sófa á kvöldin?
Lífið í nútímanum veltur sífellt meira á utanaðkomandi þáttum. Upplýsingaflæðið umlykur allt sem við gerum hvort sem það er í vinnu, skóla eða í frítíma. Við réttlætum stöðuga nálægð og viðveru í snjalltækjum þannig að hægt sé að ná í okkur öllum stundum „það verður að vera hægt að ná í mig ef eitthvað skyldi koma upp á,“ heyrist gjarnan. Margir eru smeykir við að missa af símtali, skilaboðum, uppfærslum, viðburðum, afmælisdögum eða að láta fréttir fram hjá sér fara. Kannski er tilfinning fólks í dag sú að það þurfi alltaf að hafa svörin á reiðum höndum og vera á tánum.