,,Sjáðu mamma, ég gat þetta!”

Elísabet Ýrr Steinarsdóttir fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni
Elísabet Ýrr Steinarsdóttir fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni

Fjögurra ára sonur minn hrópaði úr stórum kastala: ,,Mamma sjáðu mig ég er svo duglegur, ég gat þetta!!"

 Ég svaraði:  ,,Já ég sá það, þú klifraðir upp alveg sjálfur og fórst mjög varlega."

 Hann:  ,,Já ég gat þetta alveg sjálfur.”

Hann þurfti ekki samþykki mitt, orð eða hrós til þess að vita að hann stóð sig vel. Hann vissi það og var stoltur af sjálfum sér. Hrós er afar gagnlegt og mikilvægt í uppeldi barna. En það skiptir máli hvernig er hrósað, það þarf að innihalda tilgang. Það getur verið gott að setja orð á það sem barnið er að gera og að láta vita að þú sjáir það. Okkur hættir til í amstri dagsins að hrósa bara út í loftið til þess að klára það af, hraðinn og streitan er svo mikil. Ef við stöldrum við og njótum þess að hrósa barninu á þann hátt sem nærir það, leggjum við grunn að jarðveg sem hjálpar barninu að blómstra. Uppskeran verður sú að barnið fer að geta hrósað sér sjálft en er ekki háð því að fá hrós frá öðrum. Fyrir mér er það að barn geti hrósað sér sjálft afar gott veganesti út í lífið og til viðbótar styrkist tengslamyndun foreldris og barns því svona samskipti innihalda svo mikla tengingu.

Þetta þarf ekki að vera mjög flókið og það er aldrei of seint að byrja.

 Algengt er að fólk segi:

-       Vá geggjað

-       Mjög flott

-       Þú ert ótrúlega duglegur

Þessi hrós hér að ofan eru ekki slæm en hefur þú prófað að segja t.d.:

-       Ég sé, þú krítaðir með mörgum litum

-       Þú hljópst rosalega hratt

-       Ég sé að þú varst að vanda þig

-       Gott hjá þér að muna eftir húfunni

-       Ég sá að þú klifraðir upp alveg sjálf

-       Þú fórst mjög varlega yfir vatnið

-       Þú gerðir þetta alveg sjálfur

-       Þú renndir þér alveg sjálfur niður stóru rennibrautina

Með því að orða hrósin á þennan hátt getum við ýtt undir líkurnar á því að barnið þjálfi hæfileikann til að geta hrósað sér sjálft, þegar fram líða stundir.

Hægðu á, horfði á barnið þitt og sjáðu hvað það er að gera. Talaðu við það eins og þú myndir vilja að þín innri rödd talaði við þig. Ég vil að innri rödd minna barna geti nært þau og hvatt áfram, að þau geti hrósað sér sjálf, sýnt sér mildi ef þeim mistekst og reynt aftur. Mín ósk er sú að þau séu ekki bundin því að fá hrós eða viðurkenningu frá öðrum.

Höfundur er fjölskyldufræðingur hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni


Athugasemdir

Nýjast