Samskipti eru kjarni góðs vinnustaðar

Inga Hildur Jóhannsdóttir, ritari hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.
Inga Hildur Jóhannsdóttir, ritari hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.

Undirrituð starfar sem ritari Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar og hefur gegnt því hlutverki í um það bil eitt og hálft ár. Margir hafa reynslu af riturum í stöðum eins og skólaritara. Þá hugsar maður um einstakling sem veit einhvern veginn hvar allir húsinu eru staddir, heldur utan um fjarvistir nemenda og getur alltaf reddaöllu sem mann skortir. Þetta er allavega það sem kom í huga mér þegar ég sótti um starfið. Þessi lýsing hefur reynst að mestu leyti rétt og hef ég komist að því að starf ritara er sennilega með því fjölbreyttasta sem maður getur unnið í skrifstofuvinnu.  Samskipti við viðskiptavini og fagaðila eru mikil í mínu starfi og er það kostur fyrir manneskju eins og mig sem finnst einstaklega gaman að spjalla.

 Við höfum sennilega öll upplifað á lífsleiðinni að hafa unnið starf sem okkur þótti ekkert sérlega heillandi og ekki verið tengt okkar menntun eða áhugasviði. Stundum hefur það kannski ekki skipt miklu máli og mann jafnvel hlakkað til að mæta í vinnuna vegna þess að samstarfsfólkið var svo skemmtilegt eða yfirmenn sanngjarnir og góðir í að halda utan um starfsfólkið. Nú tala ég af reynslu þar sem ég hef prófað alla flóruna af störfum og get með sanni sagt að þar sem gaman er hjá starfshópnum þar er eftirsótt að vinna. Því miður eiga vinnuveitendur það til að gleyma eða hundsa þá staðreynd að ef andi hópsins er ekki góður, samskipti og persónuleg tengsl milli starfsfólksins lítil þá getur það yfirfærst yfir á afrakstur hópsins.

 Ég áttaði mig fljótt á þessu eftir að ég byrjaði að vinna sem unglingur, það skipti engu máli við hvað ég var að vinna, ef ég átti í góðum tengslum við að minnsta kosti eina manneskju á vinnustaðnum þá var hvatinn til að mæta í vinnuna meiri. Yfirmaður hópsins er að sjálfsögðu lykil manneskjan í þessu samhengi og þarf hann að setja fordæmi fyrir hópinn. En hvernig setur yfirmaður fordæmi í þessu máli hugsa sjálfsagt sumir og þarf það ekki að vera flókið: til að hvetja hópinn til tengsla þarf yfirmaður eða stjórnendur að leggja áherslu á hópefli í vinnu og utan

Þegar þessi pistill er skrifaður situr undirrituð inn á skrifstofu Heilsu- og sál. Mánudagsandinn liggur yfir og allir fagaðilarnir á stofunni eru að setja sig í gírinn fyrir viðtöl vikunnar. Eftir augnablik næ ég mér í hádegismat og sest niður með samstarfsfólki mínu á hádegisfundi sem eru haldnir alla mánudaga. Þetta er ekki hefðbundinn fundur vegna þess að tilgangur fundarins er að setjast niður saman og spjalla og stundum göngum við hringinn og deilum líðan okkar hverju sinni. Mörgum kann að finnast þetta óþægilegt og erum við jú öll mis hrifin af því að deila tilfinningum okkar eða aðstæðum með öðrum. En þetta gerir það að verkum að við erum meðvituð um stöðu samstarfsfólks okkar, getum unnið betur saman í kjölfarið og það myndast tengsl. Með tengslum kemur samkennd og vinátta sem getur skipt sköpum fyrir líðan hvers og eins í vinnunni.

 Með þessum pistli vil ég hvetja alla vinnuveitendur til að huga að starfsfólkinu sínu og leggja grunn að uppbyggilegum samskiptum innan hópsins. Þar liggur nefnilega lykillinn að góðum vinnustað.

Höfundur er Inga Hildur Jóhannsdóttir, ritari hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.

 


Athugasemdir

Nýjast