Hvað gera iðjuþjálfar?

Sonja Finns og Iris Myriam skrifa

27. október ár hvert er haldinn alþjóðlegur dagur iðjuþjálfa! Í tilefni dagsins langar okkur að vekja athygli á störfum iðjuþjálfa í þjónustu við börn hér á Húsavík. Hlutverk iðjuþjálfa er að efla iðju, þátttöku, heilsu og velferð einstaklinga á öllum aldri. Skjólstæðingshópur iðjuþjálfa samanstendur af einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að taka fullan þátt í daglegum athöfnum en iðjuþjálfar greina hvað veldur iðjuvanda með því að skoða samspil einstaklings, iðju og umhverfis. Starfsvettangur iðjuþjálfa er breiður en þar má meðal annars nefna heilbrigðis- og félagsþjónustu, grunn- og leikskóla og fyrirtæki á almennum markaði. Fjölbreyttur starfsvettvangur iðjuþjálfa endurspeglast í því hvernig við vinnum hér í bænum. Hér fyrir neðan kynna iðjuþjálfar leik- og grunnskóla Húsavíkur störf sín.

Iðjuþjálfun barna

Í iðjuþjálfun barna er lögð áhersla á fjölskyldumiðaða þjónustu sem byggir á náinni samvinnu foreldra/forráðamanna og iðjuþjálfa. Hver fjölskylda er einstök og þekkir best til styrkleika og þarfa barns. Á undanförnum árum hefur það aukist að iðjuþjálfun barna fram í nærumhverfi þess, svo sem í skólum og leikskólum á vegum sveitarfélaga.

 

Iðjuþjálfun á Grænuvöllum

Í daglegu leikskólastarfi fást börn við ýmsa iðju en þar má til dæmis nefna að klæða sig í og úr útifötum, að matast, að taka þátt í samverustundum, leika við samnemendur, lesa, teikna, skrifa, fara í útiveru, stunda íþróttir og svo lengi mætti telja. Hlutverk iðjuþjálfa á leikskóla er að mæta börnum sem af einhverjum orsökum geta ekki fullan þátt í leik og starfi og greina hvað býr að baki vandans og útfæra lausnir, veita ráðgjöf til starfsmanna og foreldra sem og að þjálfa upp aukna færni við iðju. Þjálfun felst meðal annars í skynörvun, fín- og grófhreyfiþjálfun og félagsfærniþjálfun.

-          Sonja Finns, iðjuþjálfi á Grænuvöllum

 

Iðjuþjálfun í Borgarhólsskóla

Áherslur iðjuþjálfa innan skólakerfisins er að styðja við þátttöku nemenda með sérþarfir þannig að þeir nýti sér til fulls þau tækifæri sem sérkennsla býður upp á. Megin markmiðið er að börn verði virkir þátttakendur í skólastarfinu og er því sjónum beint að tækifærum og hindrunum í umhverfinu sem geta haft áhrif á þátttöku. Iðjuþjálfi sinnir einstaklingsbundinni þjálfun sem miðar að því að efla færni nemenda til að auka skólaþátttöku og veitir starfsfólki skólans ráðgjöf. Iðjuþjálfi er lausnamiðaður, finnur leiðir til að styðja við ólíkar þarfir nemenda, svo sem með því að vinna að hugafarsbreytingu, innleiða breyttar aðferðir til náms og notkun tækninnar til stuðnings.

-          Iris Myriam, iðjuþjálfi í Borgarhólsskóla

 

Heimildir:

https://www.ii.is/idjuthjalfun/um-idjuthjalfun/

https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/29626/I%C3%B0ja%2C%20heilsa%20og%20velfer%C3%B0.%20I%C3%B0ju%C3%BEj%C3%A1lfun%20%C3%AD%20%C3%ADslensku%20samf%C3%A9lagi.pdf?sequence=1


Athugasemdir

Nýjast