Dornier 328 skrúfuþota Ernis á Húsavíkurflugvelli í Aðaldal. Mynd/Ernir
Egill P. Egilsson skrifar
Mál málanna í allri umræðu á Norðurlandi um þessar mundir er boðuð sameining Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.
Miðað við alla þessa umræðu þarf ekki mikið ímyndunarafl til að komast að þeirri niðurstöðu að sameiningarplön mennta- og barnamálaráðherra fái ekki jákvæðan hljómgrunn.
Nemendur skólanna hafa staðið í mótmælum, hagaðilar, bæjarfulltrúar og þingmenn hafa ruðst fram á ritvöllinn til að koma á framfæri áhyggjum sínum af málinu, já og hreinlega til að mótmæla þeim. Nú síðast þingflokksformaður Framsóknar, Ingibjörg Isaksen sem skorar á samflokksmann sinn, háttvirtan ráðherra menntamála um að endurskoða vinnuna og markmið sameiningarinnar.
Þögla mál landshlutans
Annað mál í landhlutanum hefur verið heldur fyrirferðarminna í opinberri umræðu, þó alvarleiki þessi sé talsverður fyrir íbúa austan Vaðlaheiðar.
Í Vikublaðinu sem kemur út í dag er rætt við Aðalstein Á. Baldursson formann Framsýnar, stéttarfélags um framtíð áætlunarflugs um Húsavíkurflugvöll. Komið hefur fram að flugfélagið Ernir muni hætta áætlunarflugi á milli Húsavíkur og Reykjavíkur um næstu mánaðamót ef ekki komi loforð um breyttar forsendur fyrir þann tíma.
Ég ætla ekki að fara rekja það í lögnu máli hvaða forsendur það séu, en í stuttu máli kallar flugfélagið eftir ríkisaðstoð líkt og á öðrum sambærilegum flugleiðum í innanlandsflugi.
Fundað fyrir luktum dyrum
Það sem mér þykir undarlegast við þetta mál er hvað það fær litla umræðu. Téður formaður Framsýnar, hefur vissulega haft hátt um framtíð Húsavíkurflugsins um árabil og barist fyrir tilvist þess. Eins og fram kemur í fréttinni sem ég vísaði til, kallaði hann á mánudag til fundar stjórnendur flugfélagsins og fulltrúa Norðurþings og Þingeyjarsveitar til að ræða stöðuna og leita leiða fluginu til bjargar. Síðar sama dag hann fundaði rafrænt ásamt sömu fulltrúum og nokkrum þingmönnum kjördæmisins. Þá hefur hann einnig vakið athygli forsætisráðherra á málinu.
Tíminn færist hættulega nálægt mánaðamótum en ekki ratar þetta mál inn í opinbera umræðu. Það er með ólíkindum að eini talsmaður þessara samgönguleiðar sé formaður stéttarfélags á svæðinu. Að minnsta kosti sá eini sem hefur hátt.
Hvar eru skoðanapistlarnir?
Ég hef ekki dottið um aðsendar greinar frá sveitarstjórnarfulltrúum, þeir kannski kláruðu kvótann í aðdraganda kosninga, þá vantaði aldeilis ekki hugðarefnin. Þetta mál virðist heldur ekki vekja áhuga hjá þingmönnum kjördæmisins, þeir sjá kannski bara í hyllingum aukna umferð um Vaðlaheiðargöng?
Ég heimsótti vefsíðu Samtaka sveitarfélaga & atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), þar fann ég enga yfirlýsingu eða áskorun til stjórnvalda. Ég fann þær heldur ekki á vef Markaðsstofu Norðurlands en eflaust hafa þær tapast í öllum færslunum um Akureyrarflugvöll. Á Fjasbókarsíðu Húsavíkurstofu er að vísu hlekkur á frétt um yfirvofandi endalok áætlunarflugsins. Aðrir hagaðilar í ferðaþjónustu, fyrirtækjaeigendur og stjórnendur hafa lítið ef nokkuð haft sig í frammi.
Hreyfiafl samfélagsins
Umræðan um sameiningardrauma mennta- og barnamálaráðherra hefur leitt mig á þann stað að það kæmi mér ekkert á óvart þó hann verði gerður afturreka með þessar hugmyndir sína. Svo sterk hefur andstaðan verið.
Og hvað kennir það okkur? Jú, einmitt það að opinber umræða um mikilvæg málefni er eitt öflugasta hreyfiafl nútímasamfélags sem við höfum.
Því skora ég á kjörna fulltrúa í sveitarfélögunum austan Vaðlaheiðar og þingmenn kjördæmisins að láta í sér heyra um hvað þeim finnst um endalok áætlunarflug frá Húsavík og framtíð Húsavíkurflugvallar; eða skiptir þessi samgönguleið íbúanna á svæðinu ykkur engu máli?
Það getur vel verið að þið hafið skrifað einhverja tölvupósta á bak við tjöldin en til að koma hreyfingu á hlutina þarf að setja þrýsting á ríkið fyrir opnum tjöldum og skapa umræðu; kveikja í íbúum sem mæta á á kjörstað. Og ef þið teljið þetta mál ekki vera nógu mikilvægt, þá er líka alveg sjálfsagt að þið segið kjósendum hug ykkar í málinu. Klukkan tifar.
Höfundur er áhugamaður um umræðu mikilvægra málefna
Afar vel heppnaður Súpufundur atvinnulífsins fór fram í DriftEA við Ráðhústorg á Akureyri í gær, þar sem rætt var um framtíð tæknináms á Norðausturlandi.
Fimmtudaginn 18. september fer fram Vísindadagur SAk og Heilbrigðisvísindastofnunar HA og SAk. Á dagskránni eru fjölbreytt og áhugaverð erindi þar sem starfsmenn SAk og samstarfsaðilar kynna rannsóknir og þróunarverkefni. Viðburðurinn fer fram í fundarherberginu Kjarna á SAk og verður einnig í beinu streymi á Teams.
Sigrún María Óskarsdóttir ætlar að taka þátt í Aðgengisstrollinu sem fram fer í dag í tengslum við Evrópsku samgönguvikuna og hvetur öll til að koma og vera með. Sigrún María er Akureyringur vikunnar.
Ný rannsókn er hafin á Íslandi þar sem hreyfing, kyrrseta og svefn fólks í landinu á aldrinum 20–69 ára verða mæld með hlutlægum hætti. Rannsóknin, sem nefnist Landskönnun á hreyfingu, kyrrsetu og svefni, er hluti af stóru Evrópuverkefni, JA Prevent, sem hefur það markmið að efla forvarnir gegn ósmitbærum sjúkdómum.
Unglingadeildin Lambi er ný viðbót í starf björgunarsveitarinnar Súlna haustið 2025. Fyrsta árið verða teknir inn krakkar sem verða 14 ára á árinu og hefst þannig spennandi nýtt ævintýri þar sem ungir krakkar fá að kynnast starfi björgunarsveita á öruggan og skemmtilegan hátt.
Akureyrarbær tekur þátt í vikunni með fjölbreyttum viðburðum. Aðalviðburður vikunnar verður svokallað Aðgengisstroll, sem haldið verður í samstarfi við Sjálfsbjörg á Akureyri og Virk efri ár, miðvikudaginn 17. september kl. 16.30. Farið verður frá Lystigarðinum að Íþróttahöllinni, um 400 metra leið. Á bílaplaninu við Íþróttahöllina verður boðið upp á grillaðar pylsur og samtal um upplifun þátttakenda. Þar verður einnig aðgengilegur strætisvagn til sýnis og gestum gefst tækifæri til að prófa að fara yfir minni hindranir í hjólastól undir leiðsögn Sjálfsbjargar. Bæjarfulltrúar munu fara leiðina í hjólastólum sem Sjálfsbjörg útvegar og öðlast þannig innsýn í daglega reynslu fólks með skerta hreyfigetu. Öll eru velkomin til að taka þátt og ræða saman um aðgengi og hindranir í nærumhverfinu.
Sigurbjörn Tryggvason hefur verið vélstjóri á skipum Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja svo að segja frá því hann útskrifaðist sem vélstjóri árið 1984. Lengst var hann vélstjóri á Sléttbak EA 304. Síðustu fimm árin hefur Sigurbjörn verið vélstjóri á Björgúlfi EA 312, sem hann segir prýðilegt skip í alla staði.
Nemendafélagið Þórduna hefur sett af stað sölu á VMA skólapeysum. Í ár er sérstök áhersla lögð á bleiku peysurnar, þar sem allur ágóði af sölu þeirra rennur í minningarsjóð Bryndísar Klöru. Að auki eru í boði bæði gráar og bláar peysur í fjölbreyttum stærðum.
Dagana 19.–20. september fer fram umfangsmikil ráðstefna í Háskólanum á Akureyri um kennslu íslensku sem annars máls með sérstakri áherslu á nám fullorðinna. Ráðstefnunni er ætlað að bregðast við ákalli samfélagsins, innflytjenda, framhaldsfræðsluaðila og háskóla um samráðsvettvang á þessu sviði.