26. október, 2025 - 13:34
Heiðrún E. Jónsdóttir
Nú er langt liðið á október mánuð, sem oft er nefndur bleikur október og tileinkaður baráttunni við krabbamein. Flest okkar eigum við ættingja eða vini sem hafa þurft að berjast við þennan skæða óvin, fyrir utan þá sem hafa þurft að berjast gegn honum óumbeðið. Margir falla í valinn eftir erfiða baráttu en sem betur fer eru einnig margir sem knýja fram sigur. Þessa dagana hugsa ég mikið til Brynju systur minna sem lést eftir afar erfiða og snarpa baráttu við hið illvíga mein, en hún lést um fjórum mánuðum frá því að hún var greind.
Það er mikið áfall að greinast með krabbamein, einnig fyrir aðstandendur. Við tekur mikil óvissa og mikilvægt að þétta hópinn í kringum þann sem hefur greinst með krabbamein. Baráttan er oft löng og ströng, en stundum er hún snörp og sjúkdómurinn illvægur og gefur engin grið.
Læknar tíminn öll sár?
Ég er ekki sannfærð um að tíminn lækni öll sár. Það er afar mismunandi hvernig aðstandendur takast á við missi, og hver verður að takast á við sorgina með sínum hætti. Vissulega lærir fólk að lifa með sorginni og sorgin birtist með mismunandi hætti, stundum fyrirvaralaust, kraumar undir yfirborðinu. Oft er hægt að bægja henni frá um tíma, en sorgin er eins og veturinn, frostið og myrkrið, kemur alltaf aftur. En dauðinn þarf þó ekki alltaf að birtast óvæginn og miskunnarlaus, og skilja eftir sig ólæknandi sár. Hann getur líka birst okkur bjartur og líknandi sérstaklega ef baráttan hefur verið löng og ströng.
Vegur sorgarinnar er vissulega langur og strangur en hvorki ófær né endalaus
Mikilvægt er að hver og einn fái tíma og tækifæri til að vinna úr sorginni. Syrgja þann sem var sigraður, eða þá syrgja það líf og framtíð sem blasti við. Að greinast með krabbamein breytir öllu á svipstundu. Við getum ekki sniðgengið sorgina eða stytt okkur leið. Vegur sorgarinnar, er langur og strangur, suma daga virðist hann nokkuð greiðfær en nánast ófær þann næsta og jafnavel endalaus.
Krabbameinsfélagið
Ráðgjafar Krabbameinsfélagsins bjóða upp á ókeypis fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra. Félagið er rekið fyrir styrki frá almenningi og fyrirtækjum. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum
www.krabb.is
Kveðja, Heiðrún
