„Enginn heimsókn er eins, en þær eiga það allar sameiginlegt að vera yndislegar og mér verður hlýtt í hjartanu í hvert skipti,“ segir Sunna Valsdóttir sem er hundavinur á vegum Rauða krossins við Eyjafjörð. Hún hefur verið heimsóknarvinur með hund frá árinu 2022 og starfar nú sem hópstjóri í verkefninu sem hún segir að sé gefandi og skemmtilegt. Siberian Husky hundar hennar, Logi og Kolur vekja alltaf lukku þegar þeir mæta í Brekkukot en þangað mæta þeir með Sunnu sinu sinni í viku.
Sunna ólst upp á Þórshöfn en hefur búið um árabil á Akureyri ásamt Birnu dóttur sinni. Þær eiga tvo Siberian Husky hunda, Múla-Loga og Fjallsins- Kol. „Áhugi minn á hundum kviknaði snemma, ég var aðeins 9 ára þegar ég eignaðist minn fyrsta hund og má með sanni segja að þar hafi fræinu verið sáð,“ segir hún, en upp frá því hafa hundar verið stór hluti af lífi hennar.

Sunna Valsdóttir með Birnu dóttur sinni sem ekki er síður áhugasöm um hunda en mamma hennar
Mæðgurnar fengu Alaskan Husky tíkina Körmu árið 2015, „þá féll ég alveg fyrir tegundinni,“ segir hún. Logi bættist í hópinn árið 2018. Eftir veikindi hjá Körmu á árinu 2019 þurfti Sunna að taka þá erfiðu ákvörðun að svæfa hana. „Það hafði mikil áhrif á mig, og enn meiri á Birnu því Karma var hennar hundur.“
Hundaáhuginn þróaðist út í ákveðin lífsstíl
Birna hafði um árin sýnt og sannað að áhugi hennar fyrir hundum væri mikill og alls ekki að minnka, þannig að Sunna leyfði henni að kaupa sinn eigin hund, Kol á árinu 2020. „Hún mætir með mér á alla fyrirlestra sem tengjast hundum og veltir merkjamáli þeirra og þjálfun fyrir sér. Hún kom með þegar Kolur fór á hundavinanámskeið og vildi ólm læra um hvað þetta verkefni snýst. Hver veit nema hún verði sjálf hundavinur í framtíðinni, en hún er mjög virk í keppnum, bæði í hlaupakeppninni Cani-cross og hundasleðakeppnum. Hundaáhugi okkar hefur þróast út í ákveðinn lífsstíl,“ segir Sunna.
„Mér hefur alltaf þótt það áhugavert hvað fólk á oft auðveldara með að tengjast dýrum fremur en öðru fólki, það getur brotið niður ákveðna feimni í mannlegum samskiptum að vera með hund á staðnum,“ segir hún. Hundavinanámskeiðið sá hún auglýst á sínum tíma og það kveikti forvitni og áhuga. „Ég var með tvo rólega mannelska hunda. Það var ekkert því til fyrirstöðu að skrá sig á námskeiðið og leyfa fleirum að njóta góðvildar þeirra.“
Var heilluð eftir fyrstu heimsóknina
Sunna fór fyrst með Loga og var hann fyrsti Siberian Husky hundurinn til að ljúka námskeiðinu á Norðurlandi. Í spjalli við Sóleyju Björk verkefnastjóra hundaverkefnisins kom fram að beiðni hefði komið frá Brekkukoti, skammtímavistun fyrir börn með sérþarfir á Akureyri um að fá heimsóknarhund. „Mig langaði virkilega að fara í það verkefni með Loga, hann er einstaklega góður með börnum og líka gaman fyrir krakkana að fá „öðruvísi“ hund til sín. Logi er bi-eyed – annað auga hans er blátt og hitt grænt sem vekur athygli og gerir hann að algjörum bangsa.“
Sunna segist hafa verið alveg heilluð af verkefninu eftir fyrstu heimsóknina á Brekkukot og tók þá ákvörðun að Kolur yrði líka heimsóknarvinur. „Það var svo einstakt að sjá krakkana með Loga, eftir skamma stund voru þau hvert og eitt komin með ákveðna tengingu við hann og hann gagnvart þeim. Krökkunum finnst sérstaklega skemmtilegt að svo virðist sem Logi geti talað. Þessi hundategund er þekkt fyrir að „syngja“. Þegar ég segi I love you svarar hann mér með spangóli.“
Heimsækja Brekkukot og taka sérstök verkefni með
Kolur fóru á hundavinanámskeið árið 2023. Sunna segir að hún sé oft spurð hvort hann sé úlfur, enda sé hann bæði stór og vissulega svolítið úlfalegur. „En þvert á móti, Kolur er hin mesta kelirófa, sannkallað kúrudýr í úlfaham.“
Sem dæmi, fór Kolur á Vísindadaga Háskólans og sýnir börnum hvernig NoseWork virkar en það snýst um að hundur læri að finna og merkja við lykt og eigandinn læri að lesa í sinn hund. Einnig hefur Logi farið með Sunnu á 112 daginn á Glerártorg, þar sem þau kynntu hundavinanámskeiðið, „hann er alltaf hrókur alls fagnaðar,“ segir Sunna. „Öll þau verkefni sem við tökum að okkur einkennast af gleði, bæði hjá starfsmönnum og skjólstæðingum.“

Sigurbjörg og Gjóska taka þátt í verkefninu
Verkefnið snýst um að brjóta niður félagslega einangrun
Logi og Kolur bera sérstakan klút þegar farið er út að sinna verkefnum og voru þeir fljótir að tengja klútinn við að heimsókn væri í vændum. „Þeir verða alveg extra glaðir þegar þeir fá klútinn, það er alveg magnað að sjá það.“
Sunna tók við stöðu hópstjóra í hundaheimsóknarverkefninu á liðnu ári. „Ég var fljót að þiggja boðið, því mér var farið að þykja einstaklega vænt um þetta verkefni og vildi leggja mitt af mörkum til að stækka það og miðla minni þekkingu og reynslu sem hundavinur áfram. Þetta verkefni skiptir svo miklu máli fyrir samfélagið og einstaklingana, það snýst fyrst og fremst um að brjóta niður félagslega einangrun. Með nærveru, snertingu og hlýju hundanna tekst þeim að brjóta niður múra og skapa tengsl sem skipta sköpum fyrir andlega líðan þeirra sem eru heimsóttir,“ segir hún.
Flestir heimsóknarvinir hafa eitt verkefni, en til eru undantekningar á því. Stærð hundanna skiptir ekki máli, aðalatriðið er að hundurinn sé heilbrigður, félagslyndur og að hann hafi náð tveggja ára aldri sem og að eigandinn þekki vel merkjamál og mörk eigin hunds. „Það er vel gætt að því að virða mörk hundsins og merkjamál hans en við förum vel yfir það á bóklega námskeiðinu,“ segir Sunna og hvetur þá sem eiga félagslyndan hund og vilja gera góðverk á dýrmætan hátt að kynna sér heimsóknarhundavinaverkefnið.
Haldin eru námskeið fyrir nýja hundavini einu sinni til tvisvar sinnum á ári. Næsta námskeið verður sunnudaginn 26. október og hægt er að skrá sig á það á vef Rauða krossins eða með því að hafa samband í síma.

Hér er Rúnar með hund sinn Rayo en þeir eru sjálfboðaliðar í hundavinaverkefni Rauða krossins