Niceair gæfa og ógæfa…

Þorvaldur Lúðvik skrifar
Þorvaldur Lúðvik skrifar
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifaði pistil og póstaði á Facebook nú síðdegis, hann gaf góðfuslegt leyfi til birtingar á vef Vikublaðsins.
 
Það vakti upp blendnar tilfinningar að endurreisn Niceair stæði fyrir dyrum.
Það er ánægjulegt ef þetta verður til þess að veita frekara flugi til og frá Akureyri brautargengi, en ljóst er að Kaupmannahafnarflug Niceair var það flug sem best gekk og til stóð að auka þegar Niceair lagði upp laupana. Þá komum við að þeim blendnu tilfinningum sem þetta vakti.
 
Til Niceair var stofnað til að fylla gat sem við þóttumst viss um að væri í samgöngum til og frá landinu. Tveggja ára rannsóknir okkar með RHA, Gallup og fleirum höfðu bent til þess að markaður væri til staðar og flug Niceair staðfesti það.
 
Fjárhagslega vorum við að komast yfir hólinn eftir brösuga byrjun sem snéri að leyfismálum okkar flugrekstraraðila, en í ljós kom þvert á fullyrðingar, að þeir gátu ekki flogið inn á Bretland.
Þá varð aldrei messufall í gegnum vetur og rauðar og gular viðvaranir og alltaf flaug Niceair, enda búið að þrautþjálfa flugmenn við þessar aðstæður, ekki síst þar sem tæknileg blindaðflug voru ekki í boði þá, eins og loks hyllir nú undir.
 
Frá upphafi var lögð áhersla á að bjóða upp á flug frá Akureyri að morgni, þannig að farþegar gætu nýtt sér tengibanka á erlendum flugvöllum sbr Kastrup. Það gekk vel, en við vorum með um 76% sætanýtingu á þessu tímabili sem fyrirtækið starfaði, auk þess sem margs konar leiguverkefni komu til okkar eftir að við vorum farin af stað.
Flugfreyjurnar voru flestar úr Eyjafirði og félagið varð fljótt hluti af mannlífinu. Norðlendingar gerðu þetta að sínu félagi.
 
Að baki fjármögnun félagsins stóð breiður hópur smærri og meðalstórra fyrirtækja og einstaklinga á Akureyri sem höfðu einlægan vilja og hugsjón til að láta þetta ganga upp, með BAFTA tónskáldið Atla Örvarsson fremstan í flokki.  Þessum framsýnu mönnum verð ég ævinlega þakklátur.
 
Blendnu tilfinningarnar sem þessar fréttir í dag vöktu upp snúa einmitt að því að þetta gekk upp, en fékk ekki líf. Viðtökur heimamarkaðar voru góðar og markaður til Akureyrar/norður og Austurlands frá erlendum farþegum var í vexti. Okkur þraut örendið þegar samstarfsaðilinn sveik okkur og varð þess valdur að við misstum frá okkur einu vélina. Lögfræðingar ráðlögðu okkur að fara ekki áfram með málið, þar sem það myndi taka amk tvö ár að fá niðurstöðu. Við yrðum jafn dauð eftir það.
Þessa páska sem vélin var hreinlega gerð upptæk í Kaupmannahöfn vegna vanskila samstarfsaðilans, reyndist ómögulegt að fá aðra vél til að taka upp þráðinn og því fór sem fór.
 
Upphafið að endalokunum voru þeir hagstæðu samningar sem við höfðum gert í lok Covid, meðan leiguverð flugvéla var enn lágt og hægt að gera góða samninga. Tólf mánuðum síðar hafði leiguverð hækkað um 50% og eigandi vélarinnar hugsaði sér gott til glóðarinnar í nýjum og betri markaðsaðstæðum. Það myndi ekki hafa varanlegar afleiðingar á hann að svíkja einhverja Íslendinga.
Afleiðingarnar urðu hins vegar slæmar fyrir alla þá sem stóðu að félaginu, hluthafa og starfsfólk, og ekki síst fyrir farþega þess.
 
Góðar viðtökur á Niceair urðu þó kannski til þess að ýta easyJet fram af brúninni, því skömmu eftir að Niceair hætti tilkynnti easyJet um flug milli Akureyrar og Bretlands. Það flug stendur enn og hefur verið bætt í.
 
Við gerðum nokkur mistök, en lærðum á leiðinni. Þetta leit sífellt betur út, en okkur entist ekki líf til að orna okkur við eldana sem við kveiktum.
Vonandi verður þetta til góðs og aðstandendum hins nýja félags farnist vel.

Nýjast