Í Grímsey eru starfrækt tvö félög, Kiwanisklúbburinn Grímur og Kvenfélagið Baugur. Þrátt fyrir að bæði félögin séu lítil og margir félagsmenn brottfluttir, eru þau ótrúlega virk og öflug. Á fundum félaganna mæta oft um tíu manns, og stundum færri, en félagsmenn sýna mikinn eldmóð þegar viðburðir eru skipulagðir eða unnið að góðgerðarmálum.
Kiwanisklúbburinn Grímur styrkti nýverið Matargjafir á Norðurlandi um 500.000 kr. og Kvenfélagið Baugur veitti sama málefni 100.000 kr. auk þess að styrkja önnur góð málefni um samtals 600.000 kr. til viðbótar.
Fjáröflun félaganna byggir fyrst og fremst á viðburðahaldi og nú fyrir jólin eru tveir viðburðir á dagskrá: Hin árlega skötuveisla kiwanismanna sem haldin verður á Þorláksmessu og jólahlaðborð kvenfélagsins sem verður haldið þann 20. desember.