Aðalsteinn Sigurðsson var lengi sögukennari við Menntaskólann á Akureyri, þann skóla sem hann útskrifaðist sjálfur frá sem stúdent. Kennsla hans var í afar föstum skorðum og tók litlum breytingum milli ára, en þótt svo væri höfðu margir nemendur dálæti á honum og lögðu sig virkilega fram við sögunámið.
Einhverju sinni var Aðalsteinn með gamla og snjáða bók í höndunum; bók sem hann hafði stuðst við í kennslunni árum saman. Þá gerist það að einhver af nemendunum tekur eftir því að spotti hangir niður úr kili bókarinnar og bendir honum á þetta.
Aðalsteinn ætlar að kippa spottanum burt, en þá tekst ekki betur til en svo að það raknar upp úr kilinum og fyrr en varir er bókin við það að detta í sundur. Þá lítur sögukennarinn framan í bekkinn og segir sposkur á svipinn:
„Nú, þetta er greinilega sjálfur söguþráðurinn!“
Einu sinni sem oftar mætti Jón Ingvar Jónsson, síðar landskunnur hagyrðingur, of seint í íþróttatíma í MA. Þegar hann opnaði dyrnar inn í leikfimissalinn voru bekkjarfélagar hans að gera einhverjar æfingar á gólfinu og við honum blöstu tuttugu og fimm afturendar. Þá varð honum að orði:
Reigja búkar háls og hupp,
hefst þá sjúka atið.
Brosi ljúka allir upp
út um kúkagatið.
Einhvern tíma á 6. áratug liðinnar aldar bar svo við að þegar starfsmenn í Kjötbúð KEA komu til vinnu á laugardagsmorgni uppgötvuðu þeir að brotist hafði verið inn í búðina um nóttina og stolið þaðan nýreyktu hangikjötslæri. Málið var kært til lögreglu en hún hafði fátt til að fara eftir og ekkert gerðist um helgina.
Á mánudeginum tók Jón Ben. yfirlögregluþjónn sér stöðu á Kaupfélagshorninu sem svo var kallað, á horni Hafnarstrætis og Kaupangstrætis. Þar fóru flest börn af Eyrinni um á leið í skóla. Gamli maðurinn var einkar alúðlegur, heilsaði öllum börnunum, klappaði þeim á kollinn og spurði:
„Hvað var nú borðað heima hjá þér um helgina?“
Enginn hafði fengið hangikjöt, ekki heldur börn úr öðrum bæjarhverfum og aldrei fannst lærið. Var þá ákveðið að þarna hlyti „svangur utanbæjarmaður“ að hafa verið á ferð og málið látið niður falla.
Raggi sót var að öðrum ólöstuðum aðalmaðurinn í akureyrsku hljómsveitinni Skriðjöklum. Logi Már Einarsson, ráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sagði eitt sinn stutta sögu af þessum sprellfjöruga félaga sínum um leið og hann minntist afmælis hans:
„Ragnar Gunnarsson, vinur minn, á afmæli í dag. Mér finnst hann með skemmtilegri mönnum þótt við deilum nú seint sömu skoðun í pólitík. Það er þó á of fárra vitorði að hann er líka djúpur heimspekingur á köflum.
Af því að mikið er rætt um streitu og kulnun og ég heyrði Ólaf Þór Ævarsson geðlækni nýverið segja að leti væri kannski vanmetin, datt mér í hug þessi saga af Ragga:
Hann stundaði nám í Tækniskólanum á Akureyri, á því skeiði lífsins þegar hugurinn er gjarnan við aðra hluti en námið. Einu sinni misbauð tengdapabba, Sigurði Óla stærðfræðikennara, hysknin í Ragga og sakaði hann um leti.
Raggi svaraði þá á svipstundu:
„Það má vel vera, Sigurður Óli, en það er betra að vera latur og nenna því en að vera duglegur og nenna því ekki.“