Aðsend grein
Á Húsavík er í dag fjölbreytt úrval af líkamsrækt og annarri heilsutengdri starfsemi. Er þá átt við þá starfsemi sem einstaklingar eða einkaaðilar bjóða uppá og er ekki undir formerkjum íþróttafélaga með samstarfs og styrktar samning við sveitafélagið. Þessi starfsemi er sprottin af frumkvöðlum og skapandi fólki. Um er að ræða crossfit, lyftingar í tækjasal, jóga, leikfimitímar og margt fleira. Þá er ótalin starfsemi eins og nudd og önnur heilsustarfsemi. Í dag er þessi starfsemi dreifð um allan bæ og lítil samlegð næst af einingunum.
Fyrirhuguð er spennandi uppbygging matvöruverslunar í miðbæ Húsavíkur. Þessi uppbygging getur þó orðið til þess að gera stóran hluta af þessum geira heimilislausan með tilheyrandi samfélagslegu tjóni. Segja má að líkamsræktarstöðvarnar sem staðsettar eru miðsvæðis séu með stærstu félagsmiðstöðvum hér í bæ og lífsgæðaaukandi fyrir íbúa.
Gróflega má áætla að aðilar í heilsutengdri starfsemi séu samtals að greiða rúmlega eina milljón króna á mánuði í húsaleigu. Því er vert að Norðurþing kanni leiðir til að koma að uppbyggingu á heilsuræktarmiðstöð án þess að hljóta kostnað af, þar sem að leigutekjur myndu skila sér beint til sveitarfélagsins.
Víða um land þekkist að sveitafélög eigi húsnæði sem hýsir heilsurækt þó að reksturinn sé í umsjá einstaklinga. Fyrirmyndirnar eru víða og hægur leikur að kanna möguleika hvað það varðar.
Við titlum okkur sem heilsueflandi samfélag og það því okkar skylda að huga að þessari mikilvægu starfsemi og hvað við sem kjörnir fulltrúar og samfélag getum gert til að halda henni gangandi.
Undirrituð lögðu því fram tillögu á fundi fjölskylduráðs um að farið verði í frumgreiningu á uppbyggingu húsnæðis sem gæti hýst framangreinda starfsemi. Samhliða þessari greiningu væri mikilvægt að koma á samtali milli rekstraraðila um málið og kanna framtíðaráform og áhuga á slíkri uppbyggingu. Það er ekki enn komið að því að framkvæmdir séu hafnar við nýja matvöruverslun. Við höfum tímann til að kanna möguleikana. Með slíkri byggingu sem gæti hýst áðurnefnda starfsemi væri hægt að búa til miðstöð fyrir heilsu og hreyfingu sem sómi væri af.
Benóný Valur Jakobsson, Ísak Már Aðalsteinsson og Rebekka Ásgeirsdóttir
Höfundar eru nefndarfólk Samfylkingarinnar í Norðurþingi