Eitt af mikilvægum verkefnum á árinu hjá nýjum safnstjóra Listasafnsins á Akureyri, Sigríði Örvarsdóttur, hefur verið að efla viðhald og forvörslu útilistaverka bæjarins. Í sumar var gerð heildstæð, fagleg úttekt á 43 verkum í bæjarlandiu, í samstarfi við franska listaverkaforvörðinn Camille Amoros, sem starfar við forvörslu útilistaverka við hina frægu kirkju Notre Dame í París, með aðstoð frá myndlistarforverðinum Kristínu Gísladóttur sem starfar hér á landi. Þetta var í fyrsta sinn sem heildstætt mat á ástandi útilistaverka bæjarins var framkvæmt, með skráningu og ljósmyndun, sem gerir Listasafninu kleift að forgangsraða í viðhaldi þeirra og vernd í framtíðinni.

Systurnar eftir Ásmund Sveinsson sem staðsett er á grasbala neðan við andapollinn
Verk eftir Nóa krefjast sérstakrar athygli
Úttektin sýndi að mörg verk eru í slæmu ástandi en sjö þess eðlis að til þurfa að koma tafarlausar viðgerðir svo eyðileggingin verði ekki algjör. Þar á meðal voru tréverkið Skógarvörðurinn Einar í Kjarnaskógi og bronsverkið Systurnar eftir Ásmund Sveinsson sem staðsett er á grasbala neðan við andapollinn. Verkin þarfnast viðhaldsaðgerða vegna veðrunar sem fyrst, þ.e. vegna rakaskemmda og tæringar. Þá má geta þess að fimm útilistaverk í bæjarlandinu eru eftir Akureyringinn Nóa (Jóhann Ingimarsson) og krefjast þau sérstakrar athygli þar sem þau eru viðkvæm og útsett fyrir seltu og raka.

Verk eftir Nóa eru viðkvæm og útsett fyrir seltu og raka.
Skylda okkar að standa almennilega að viðhaldi
„Það er skylda okkar að standa almennilega að viðhaldi þeirra verka sem tilheyra safneigninni nú þegar” segir Sigríður og bætir við „við verðum líka að huga að því að verkin njóti sín í því umhverfi sem þau eru og þar sé jafnvægi, en stundum þarf einfaldlega að flytja þau til að þetta gangi upp.” Mat á tilfærslum verka var einnig hluti af úttektinni. Staðsetning, efnisgerð verka og þar með þol gegn breytingum á veðurfari voru metin og voru einnig ákveðin verk sérstaklega metin með það fyrir augum að flytja þau nær sjávarsíðunni þar sem uppbygging á sér nú stað. Í samhengi þessara þátta má t.d. nefna verk Sólveigar Baldursdóttur, Vinabæjarskúlptúr, í göngugötunni og jafnvel Harpa bænarinnar eftir Ásmund Sveinsson sem staðsett er á Hamarskotstúni.

Harpa bænarinnar eftir Ásmund Sveinsson er á Hamarskotstúni.
Lítil upphæð
Á framlögum Akureyrarbæjar til Listasafnsins eru einungis áætlaðar 1,5 milljónir króna til árlegs viðhalds útilistaverka, sem er lág upphæð miðað við bágt ástand margra verkanna. „Útilistaverk eru viðkvæm og að hlúa vel að því sem fyrir er í safneigninni en einnig að vanda vel afgreiðslu á beiðnum um móttöku nýrra verka, sem munu þarfnast viðhalds til allrar framtíðar, er forsenda þess að menningarminjar á ábyrgð bæjarins varðveitist áfram til komandi kynslóða,” segir Sigríður