Af ,,spekingum”, bæjarfulltrúum og ,,Freka kallinum”
Helsta áskorun í málefnum menningarminja er almenn vanþekking á málaflokknum. Þetta fullyrti Andrés Skúlason verkefnastjóri og formaður fornminjanefndar í erindi fyrir skömmu. Hann staðhæfði auk þess að lítill hluti sveitarstjórnarmanna hefði kynnt sér málefni minjaverndar. Andrés hefur langa reynslu af sveitarstjórnarmálum. Hann starfaði svo dæmi sé tekið nær samfellt í 16 ár sem oddviti í Djúpavogshreppi. En hvernig er staðan í okkar ágæta bæjarfélagi sem á sér langa sögu og státar af merkum menningarminjum? Umræður á bæjarstjórnarfundi þann 7. febrúar síðastliðinn varpa ljósi á þekkingu og afstöðu sveitarstjórnarmanna í Akureyrarbæ.
Við skulum rýna í orðræðu Andra Teitssonar og andsvör Hildar Jönu Gísladóttur. Þau eru bæði að hefja sitt annað kjörtímabil og hafa því meiri reynslu en flestir samstarfsmenn þeirra í bæjarstjórn. Andri steig í ræðustól þegar fjallað var um umdeildar breytingar á skipulagi í elsta bæjarhluta Akureyrar. Hann talaði í háðstón um ,,spekingana” hjá Minjastofnun Íslands og hnýtti í bæjarfulltrúa fyrir að vitna til umsagnar þeirrar stofnunar. Virðingarleysið sem Andri Teitsson sýndi faglegri og vandaðri umsögn sérfræðings Minjastofnunar er auðvitað ósæmandi.