Um 2000 manns sóttu fjölbreytt helgihald jóla og aðventu í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli

Frá Akureyrarkirkju  Myndir aðsendar.
Frá Akureyrarkirkju Myndir aðsendar.

Í kringum 1500 manns komu í Akureyrarkirkju, um 400 sóttu þjónustu í kirkjunum frammí firði og aðrir á viðburðum hér og þar á svæðinu. Samtals sóttu 5336 viðburði, þjónustu og starf í prestakallinu í desember þannig að næg voru verkefnin hjá prestum og starfsfólki Akureyrarkirkju.

Eins og fyrri ár þá var mikið um viðburði fyrir börnin með þátttöku þeirra. Aðventuhátíð barnanna, Jólaævintýrið, helgileikurinn fluttur og jólaball annan í jólum svo fátt eitt sé nefnt. Það var jólaljóðastund og síðast en ekki síst alveg stórglæsilegir jólatónleikar kirkjukóranna sem voru fluttir fyrir pakkfullu húsi. Árið endaði og nýtt ár hófst með samvinnuverkefni Glerárkirkju og Akureyrarkirkju þar sem messa safnaðanna á Akureyri var á gamlársdag í Glerárkirkju og á nýársdag í Akureyrarkirkju.

Hvað stendur upp úr persónulega hjá prestunum? 

Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur sagði minningarstundina í Höfðakappellu á Þorláksmessu standa hjarta hennar nærri, fjölgað hafi í stundinni jafnt og þétt síðan hún var sett á að frumkvæði Samhygðar og nú Sorgamiðstöðvar Norðurlands. Í ár var fullt hús af fólki sem í sameiningu studdi hvort annað að takast á við missinn sem við finnum oft sárast fyrir á jólunum.

Séra Jóhanna Gísladóttir sagði aðventukvöldið í Grundarkirkju hafa verið töfrum líkast. Góð mæting, mikil gleði og þétt stemning, vekjandi hugvekja flutt af Sveinbjörgu Sveinsdóttur og kórinn hafi átt stórleik og söng í stundinni. Virkilega ánægjuleg stund og nærandi. Hún bætir við að helgihald aðfangadagskvölds í Grundarkirkju og jóladags í Kaupangskirkju eigi sinn fasta stað í hjartanu og tekst alltaf að standa upp úr á hverju ári, ár eftir ár!

Allt er nýtt fyrir séra Aðalsteini Þorvaldssyni sem nefndi miðnæturmessuna í Akureyrarkirkju sem var í fyrsta skipti á 15 ára ferli sem hann messar á þessum tíma. Svo voru það messur annan í jólum, fyrst í Hólakirkju og var þá í fyrsta skipti að messa frammí firði. Hann rétt náði 5 mínútur fyrir messu að komast í hús en huggaði sig við það að fólk myndi sennilga hinkra eftir prestinum. Eftir messu var boðið í kaffi á Vatnsenda og þaðan var farið í Minjasafnskirkjuna að messa og Bjarnatónið þanið.

Prestarnir þrír eru sammála um að hápunktur hafi verið móttaka barna í Jólaævintýrið í Akureyrarkirkju sem var stýrt af Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, organista, og Sonju Kro, æskulýðsfulltrúa. Börn í 1. bekk komu og voru leidd í gegnum jólasöguna með ferðalagi um kirkjuna þar sem þau klæddu sig upp og tóku á sig persónur jólasögunar og hittu engla, keisara og gistihúsaeiganda. Upplifun okkar prestanna með börnunum var ekki minni en barnanna, gott ef hún var ekki bara meiri.

Prestar, sóknarnefndir og starfsfólk safnaðanna þakkar öllum fyrir komuna og góðar stundir saman. 


Athugasemdir

Nýjast