Húðvaktin er ný fjarlækningaþjónusta í húðlækningum

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, Bjarni Kristinn Eysteinsson og Jenna Huld Eysteinsdóttir standa að fyrirt…
Ragna Hlín Þorleifsdóttir, Bjarni Kristinn Eysteinsson og Jenna Huld Eysteinsdóttir standa að fyrirtækinu Mynd Húðvaktin

Húðvaktin er fjarlækningaþjónusta sem opnaði þann 3. janúar síðastliðinn og er fyrsta þjónusta sinnar tegundar á Íslandi. Húðvaktin býður fólki sem þarf á aðstoð sérfræðings í húðlækningum að halda að fara inn á hudvaktin.is og skrá þar beiðni til læknis. Fyrir beiðnina þarf tvær myndir og lýsingu á þeim húðeinkennum sem eru til staðar, en því næst er beiðnin send til afgreiðslu hjá sérfræðingi í húðlækningum. Innan 48 klukkustunda svarar húðlæknir og setur upp meðferðarplan sem eftir atvikum getur m.a. falið í sér lyfjameðferð, frekari rannsóknir á stofu eða tíma á skurðstofu.

   Dermatofibroma 

Viðtökurnar við þjónustunni hafa verið góðar og við erum að fá um 5 - 10 beiðnir á dag. Einnig er í undirbúningi að þróa verkefnið áfram með heilsugæslunni þannig að heilsugæslulæknar geti óskað eftir aðstoð og stuðningi í gegnum veflausn Húðvaktarinnar. Þetta hefur mælst vel fyrir og verður sérstaklega gagnlegt fyrir heilsugæsluna út á landi. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá okkar notendum og sérstaklega þeim sem búa á landsbyggðinni. Mikill sparnaður felst í því að geta sótt sér þjónustuna í gegnum netið og þurfa ekki að taka frí í vinnu eða skóla og leggja í löng, kostnaðarsöm og erfið ferðalög til að sækja sér þjónustu sérfræðilæknis.

Hugmyndin að Húðvaktinni kviknaði hjá tveimur reyndum sérfræðingum í húðlækningum, Rögnu Hlín Þorleifsdóttur og Jennu Huld Eysteinsdóttur, en þær hafa báðar reynslu af fjarlækningum úr sérnámi sínu í Svíþjóð.  Staðan á Íslandi er sú að það er um 7 til 8 mánaða bið eftir þjónustu húðlæknis.  Þessi langi biðtími býr til mikið álag á húðlækna sem og sjúklinga.  Þær brugðu því á það ráð að fá Bjarna Kristinn Eysteinsson með sér í lið til að aðstoða sig við að koma á fót lausn sem gerði fólki kleift að sækja sér þjónustu sérfræðings í húðlækningum í gegnum netið.  Úr varð Húðvaktin, en þróunin á lausninni, sem og að afla nauðsynlegra leyfa hjá Embætti landlæknis, tók rúmt ár.  Þetta hefur gefist afar vel og eru rétt tæplega helmingur allra beiðna sem við fáum, frá aðilum utan höfuðborgarsvæðisins.  Það er afar ánægjulegt þar sem eitt af markmiðum okkar var að bæta þjónustuna við landsbyggðina og spara fólki dýrmætan tíma í ferðalögum og fjarveru frá vinnu. Því hentar þessi þjónusta fólki utan að landi sérstaklega vel. Annað markmið var að stytta bið eftir þjónustunni, en öllum beiðnum er svarað innan 48 klukkustunda sem er auðvitað mikill kostur.

  Kossageit 

Eins og er í dag, þá er þjónusta Húðvaktarinnar utan kerfis Sjúkratrygginga Íslands.  Það stendur þó til bóta og stefnt er að því að koma þjónustunni þar inn, enda viljum við jafnt aðgengi allra að  þjónustu húðlækna.

  Atópískt exem

Nánari upplýsingar um þjónustuna eru á hudvaktin.is


Athugasemdir

Nýjast