Byggjum upp menningatengda ferðaþjónustu á Möðruvöllum
Í Vikublaðinu 9. desember síðast liðinn var fjallað um fyrirhugaða uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal að undirlagi áhugamannafélags, Hraun ehf, með aðkomu menningar og viðskiptaráðherra.
Markmiðið er að heiðra minningu skáldsins Jónasar Hallgrímssonar sem fæddur er 16. nóvember 1807. Það er göfugt að heiðra minningu þjóðskáldsins. Það er hins vegar álitamál hvort það sé best gert með uppbyggingu að Hrauni.
Undirritaður sótti stefnumótunarfund Hrauns árið 2019. Þar kynnti ég hugmyndir um að heiðra minningu Jónasar ásamt öðrum listamönnum og fræðimönnum sem tengjast Hörgársveit. Fleiri en bara Jónas hafa auðgað menningu og sögu sveitarinnar og landsins alls. Einstaklingar sem hver um sig verðskulda að vera haldið á lofti í sveitarfélaginu. Ég tel að þessu ágæta lista- og vísinda fólki yrði betur gerð viðeigandi og sómasamleg skil með uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu að Möðruvöllum í Hörgárdal.
Stefán Magnússon
Möðruvellir voru lengi í forystu stjórnsýslu, skóla- og fræðamála landsins. Sjá feitletraða samantekt neðar.
Sjónarmiðum um uppbyggingu að Möðruvöllum var vel tekið af þeim góða hóp sem sat stefnumótunarfundinn. Stjórn Hrauns ehf kaus hins vegar að hafa þessi sjónarmið að engu þrátt fyrir sterkar undirtektir fundarins. Aðalmarkmið starfseminnar að Hrauni er að halda minningu Jónasar á lofti. En fyrir allan almenning í Hörgársveit hlýtur það að vera markmið að heiðra fleiri menningarfrömuði sveitarfélagsins og þá koma aðeins Möðruvellir til greina.
Árlega kemur fjöldi ferðamanna að Möðruvöllum til að skoða kirkjuna, kirkjugarðana og sögustaðinn Möðruvelli. Það er sannfæring mín að Möðruvellir gætu orðið miðpunktur menningartengdrar ferðaþjónustu þar sem kynnt yrðu menningarvitar og vísindafólk sem eiga sterkar tengingar í sveitina. Hægt væri að benda ferðafólki á áhugaverða sögustaði og að auki mætti hafa þar til sölu handverki af ýmsu tagi sem framleitt væri í sveitinni. Er þar af nógu að taka.
Þakkarvert er þegar ríkisvaldið er tilbúið að veita fjármunum til menningarstarfsemi að þessu tagi en hlutverk sveitarfélagsins hlýtur að vera að samræma sjónarmið og stýra hvernig þessum fjármunum yrði best ráðstafað. Mikilvægt er að áætlanir sýni fram á að rekstur af þessu tagi sé sjálfbær þó ríkið og e.t.v. aðrir aðilar legðu til fé til uppbyggingar.
Höfum það í huga að ef allar áætlanir ganga eftir um uppbyggingu á Hrauni er ólíklegt að menningartengd ferðaþjónusta verði byggð upp á Möðruvöllum. Ólíklegt verður að telja að ríkisvaldið setji fjármuni til uppbyggingar á tveimur stöðunum í litlu sveitarfélagi. Forystumenn í Hörgársveit verða því að tala skýrt og í þágu íbúa.
Möðruvellir voru lengi höfuðsetur stjórnsýslu á Íslandi frá ofanverðri 18.öld fram til 1874 á tímum amtmannanna. Þar var Stefán Þórarinsson (1754 –1823) lögmaður, amtmaður og konferensráð; Páll Melsteð (1791 –1861) amtmannsskrifari, síðar amtmaður, sýslumaður og alþingismaður. Sonur Páls, sagnfræðingurinn, sýslumaðurinn og alþingismaður, Páll Melsteð (1812 –1910) var þar fæddur. Grímur Jónsson (1785 –1849) amtmaður í Norður- og Austuramti á Íslandi og bæjarfógeti í Danmörku. Einn helsti boðberi rómantísku stefnunnar á Íslandi, skáldið, Bjarni Thorarensen (1786- 1841) var amtmaður norðan og austan bjó að Möðruvöllum. Þar var einnig Pétur Havstein (1812-1875) alþingismaður og amtmaður. Þar fæddist Hannes Hafstein (1861-1922) skáld, sýslumaður og fyrsti ráðherra Íslands. Þá er ónefndur Baldvin Einarsson (1801 –1833) amtmannskrifari. Hann má telja einn af upphafsmönnum íslensku sjálfsstæðishreyfingarinnar með útgáfu Ármanns á Alþingi.
Staðurinn og sveitin eiga sér merka sögu lista, bókmennta og náttúrufræði.
Þjóðskáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895 –1964) átti sterkar rætur í sveitinni og er jarðaður að Möðruvöllum. Þar sleit Jón Sveinsson (1857 - 1944) (Nonni) rithöfundur, barnskónum. Valtýr Stefánsson (1893—1963) ritstjóri Morgunblaðsins og faðir íslenskrar nútíma blaðamennsku er fæddur að Möðruvöllum. Rósa Guðmundsdóttir (1795 –1855), „Vatnsenda-Rósa“ eða Skálda-Rósa var úr Hörgárdal og var sögð í frægum ástum við Páll Melsteð amtmannskrifara. Skáldkonan Ólöf Sigurðardóttir (1857-1933) var frá Hlöðum í Hörgársveit. Hin kunni listmálari Kristín Jónsdóttir (1888 -1959) á rætur í sveitinni, fædd í Arnarnesi
Á tímum Möðruvallaskóla störfuðu þar merkir náttúrufræðingar, m.a. Þorvaldur Thoroddsen (6. júní 1855 – 28. september 1921) jarð- og landfræðingur, einhver þekktasti vísindamaður Íslendinga á sinni tíð. Hann samdi fyrstu Íslandslýsinguna. Stefán Stefánsson (1863-1921) kennari, grasafræðingur, alþingismaður og skólameistari bjó þar lengi rausnarbúi. Hann samdi þar fyrstu Flóru Íslands. Náttúrufræðingurinn, þjóðfræðingur og þjóðsagnasafnari Ólafur Davíðsson (1862–1903) kenndi að Möðruvöllum. Hinn þjóðkunni alfræðingur og náttúrufræðingur, Steindór Steindórsson (1902-1997) var fæddur að Möðruvöllum. Þessi upptalning er ekki tæmandi en sýnir vel hve stór hópur lista og fræðimanna tengjast Hörgársveit.
Athugasemdir