Bréf frá Stórutjarnarskóla um We-Við-Meie

Í vor fengum við, nemendur í elstu bekkjum Stórutjarnaskóla og Sigríður Árdal og Marika Alavere, styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins til að vinna að alþjóðlegu ungmennaverkefni sem ber nafnið „We – Við – Meie“. Markmið verkefnisins var að efla samskipti, samvinnu og sjálfstraust þátttakenda. Kynnast ólíkri menningu og skoða og kynnast náttúrunni og vekja okkur til umhugsunar af hverju við þurfum að hugsa um náttúruna.

Verkefnavinnan fór fram í byrjun september og fengum við góða gesti frá Eistlandi til okkar í eina viku. Þetta var framhaldsverkefni af „Eye-Ég-Mina“ verkefninu en fyrir ári síðan fór íslenski hópurinn til Eistlands þar sem það verkefni var unnið. Hópurinn samanstóð af 20 ungmennum frá þessum tveimur löndum, ásamt kennurum þeirra.

Viðburðarrík heimsókn

Vikan var mjög spennandi en við fórum meðal annars í hvalaskoðun og skoðuðum lífverurnar í sjónum, við heimsóttum sveitabæi í sveitarfélaginu, fórum í fjós, fjárhús og hesthús. Við fengum að hjálpa til við heimalandasmölun og draga fé, smakka afurðir gerðar úr kúamjólkinni auk þess sem við fengum öll að fara á hestbak. Þetta var mikil upplifun, en flest okkar höfðu aldrei farið á hestbak og eistnesku gestirnir okkar aldrei upplifað smölun né réttir.

Til að kynnast náttúrunni fórum við meðal annars í dagsferðir, við vorum heilan dag við Mývatn og þar í nágrenninu þar sem við lærðum um náttúruna þar, meðal annars með því að upplifa hana á eigin skinni. Veðrið var ekki alltaf gott, en við þurftum að harka af okkur og vera úti í öllum veðrum sem var boðið uppá þessa vikuna, sól, roki og rigningu. Við áttum góða heimsókn í gestastofuna Gíg, löbbuðum um Dimmuborgir, fórum upp að Dettifossi og Víti, skoðuðum Reykjahlíðarkirkju fórum í Námaskarð sem var gríðarleg upplifun fyrir marga og lyktin þótti ekki góð. Enduðum svo í jarðböðunum sem var algjörlega frábært.

„Við eignuðumst nýja vini og styrktum eldri vináttu, þurftum að fara út fyrir þægindarammann, taka frumkvæði og tjá skoðanir okkar og tilfinningar“

Í fyrra komumst við að því að Eistland er tiltölulega flatt land og þar eru eiginlega engir fossar, við kynntum okkur því líka hvað vatnið getur verið öflugt og við fórum að Goðafossi, Aldeyjarfossi, Ingvararfossi og Hrafnabjargarfossi. Þar fengum við leiðsögn frá Sigurlínu í Svartárkoti sem fræddi okkur um jarðfræði staðarins, auk þess sem hún skemmti okkur með sögum af tröllum og huldufólki.

Við heimsóttum Laufás og skoðuðum safnið þar, auk þess sem Sigga bauð okkur heim til sín og sýndi okkur íslenskan þjóðbúning. Við kíktum í Þorgeirskirkju, fórum í heimsókn til björgunarsveitarinnar Þingey og löbbuðum uppá Níphólstjörn.

Á kvöldin var mismunandi dagskrá meðal annars var kósý kvöld við arineld, við kynntum þeim fyrir íslenskri sundlaugarmenningu, við héldum menningarviðburð þar sem við buðum uppá íslenskan mat og þau eistneskan. Við fengum námskeið í kleinugerð þar sem við lærðum öll að snúa og steikja kleinur, einnig var boðið uppá tónheilun með náttúruhljóðum og gongspili eitt kvöldið.

Lærðu þjóðhætti beggja landa

Dagskráin var því ansi fjölbreytt en fyrir utan þetta allt saman tókum við þátt í miklu hópefli sem Sigga og Marika skipulögðu, við þurftum líka að vinna úr upplifun okkar og lærdómi, við lærðum þjóðdansa, töluðum ensku allan tímann og spiluðum mjög mikið blak. Mjög mikið blak.

Vikan og verkefnavinnan lauk með opnu húsi í Stórutjarnaskóla, það var góð mæting af fólki úr nærsamfélaginu okkar og við erum þakklát fyrir það. Á opna viðburðinum vorum við með stutta kynningu á „We-Við-Meie“ verkefninu, sýndum myndband af vikunni okkar en svo var hægt að skoða verkefnin sem við höfðum unnið, við sýndum og kenndum dansa, það var í boði að smakka eistneskan mat, auk þess sem við buðum uppá hjónabandssælu og kleinur sem við höfðum steikt saman í vikunni.

Frábær vika sem gleymist seint

Í verkefninu æfðum við okkur í ensku, samskiptum og samvinnu. Við lærðum að meta og virða mismunandi menningu og urðum meðvitaðri um umhverfið okkar og náttúruna, lærðum betur að vinna í hóp og taka þátt í skipulagningu og framkvæmd viðburða. Við eignuðumst nýja vini og styrktum eldri vináttu, þurftum að fara út fyrir þægindarammann, taka frumkvæði og tjá skoðanir okkar og tilfinningar.

Þetta var algjörlega frábær vika og við öðluðumst meira sjálfstraust og dýrmæta reynslu sem mun nýtast okkur áfram í námi og lífi. Við söknum vina okkar frá Eistlandi og vonum innilega að við getum hitt þau aftur.

Erasmus+ hópurinn

Vefur Þingeyjarsveitar sagði fyrst frá

 

Nýjast