ÁFALLAHJÁLP ÞJÓÐKIRKJUNNAR

Ljósmynd Eyþór Ingi Jónsson, tekin að vetri til í kirkjugarðinum á Naustahöfða.
Ljósmynd Eyþór Ingi Jónsson, tekin að vetri til í kirkjugarðinum á Naustahöfða.
Mig langar á þessu hausti til að minna á áfallahjálp og sorgarstuðning Þjóðkirkjunnar í landinu og minnast sérstaklega á það sem er í boði hér á Akureyri fyrir bæjarbúa og nærsveitir.
Frá árinu 2013 hefur verið hér starfræktur hópur sem nefnist Dagrenning og undirrituð haldið utan um en þar hittast foreldrar sem misst hafa börn og veita hvert öðru virka hlustun og jafningjastuðning.
 
Þessi hópur hefur sem sagt hist hér í Akureyrarkirkju í hverjum mánuði í tólf ár og mér telst til að um fimmtíu manns hafi notið þjónustu hans um lengri eða skemmri tíma, ég hef verið lánsöm að fá að vera samferða þessu lífsreynda fólki í öll þessi ár og læra af því.
 
Örninn er annað starf sem hóf göngu sína í Vídalínskirkju í Garðabær fyrir um sjö árum og er fyrir börn sem misst hafa foreldri eða systkini. Undanfarin fjögur ár hefur Örninn einnig verið starfræktur mánaðarlega hér á svæðinu og þjónað börnum og ástvinum þeirra alveg frá Þórshöfn til Siglufjarðar. Sjálfboðaliðar í þessu starfi eru sr Hildur Eir, sr Aðalsteinn Þorvaldsson, Tinna Hermannsdóttir kennari og æskulýðsfulltrúi og Bryndís Björg Þórhallsdóttir hjúkrunarfræðingur með reynslu úr líknarhjúkrun og með diploma í sálgæslu.
Í vetur mun undirrituð í samstarfi við Píeta Píeta Samtökin halda mánaðarlegar samverur fyrir þá sem hafa misst ástvin í sjálfsvígi. Þær samverur verða annan mánudag í mánuði hér í Akureyrarkirkju og hafa þegar hafið göngu sína.
 
Hildur Eir Bolladóttir

 Allt þetta starf er unnið þvert á trú og trúarbrögð að því leytinu til að þótt fagaðilinn sem er prestur eigi trú þá er starfið fyrst og síðast fagleg sorgarvinna enda prestar mjög reyndir í henni.

Það vill þannig til að í gegnum aldirnar hafa prestar sinnt þessu mikilvægaa hlutverki af því að sorg og sorgarviðbrögð eru ekki kínísk vandamál eða óeðlileg hegðun heldur þvert á móti fullkomlega eðlileg viðbrögð við miklum sársauka. Eðli prestsstarfsins er að vera mikið í kringum dauðann og því eru prestar mjög verseraðir og reyndir á þessum vettvangi en sálgæsla í sorg snýst að miklu leyti um að þora að vera á vettvangi, hvíla í þögninni og grátinum og reiðinni og angistinni og öllu sem fylgir, vitandi að þú getur engu breytt en samt svo mikið gefið, gefið af þér og þinni samkennd og kærleika.
 
Um landið þvert og endilangt er Þjóðkirkjan að bjóða upp á sálgæslu, í einkaviðtölum, hópastarfi og með ýmis konar erindum, bæði innan háskólans, á ýmsum vinnustöðum og jafnvel í fjölmiðlum. Að auki taka prestar bakvaktir og skiptast þar á með vaktsíma ef slys, sjálfsvíg eða skyndileg og ótímabær andlát verða og eru þá í samvinnu við lögreglu með að mæta á vettvang til að veita áfallahjálp og sálrænan stuðning.
 
Já gömlu góðu Þjóðkirkjunni er kannski ekki alls varnað.
 
Pistill þessi birtist  fyrst á Facebooksíðu Hildar en hún gaf góðfúslegt leyfi fyrir birtingu hans hér.

Nýjast