Hafa foreldrar skoðun á leikskólagjöldum og skráningardögum?

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson Framsóknarflokki
Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson Framsóknarflokki

Í október 2023 samþykkti meirihluti bæjarstjórn Akureyrarbæjar að hefja eins árs tilraunaverkefni þar sem fyrstu sex klukkustundir leikskóladagsins urðu gjaldfrjálsar, en áfram greitt fullt gjald fyrir lengri dvöl barna. Samhliða voru teknir upp svonefndir skráningardagar og innleidd tekjutenging leikskólagjalda.

Markmið þessa tilraunaverkefnis var meðal annars að bæta nýtingu leikskólarýma, auka sveigjanleika fyrir foreldra og skapa betri starfsskilyrði fyrir starfsfólk leikskóla. Til að meta svo árangur verkefnisins, þá átti að sex og tólf mánuðum liðnum að kanna viðhorf foreldra og starfsfólks til þjónustunnar, og leggja fram stöðuskýrslur í kjölfarið.

Því miður hefur sú eftirfylgni ekki átt sér stað. Engar stöðuskýrslur hafa verið kynntar opinberlega og engin heildstæð greining á áhrifum verkefnisins hefur verið lögð fram. Tilraunaverkefninu ætti auðvitað að vera lokið, og eðlilegast þá að kynna niðurstöður og meta hvaða markmið hafi náðst ⎯ hver kostnaðurinn sé og hvort foreldrar almennt séu ánægðir með þjónustuna ⎯ áður en endanleg ákvörðun er tekin um framhaldið.

Vöndum vinnubrögðin

Svör við sumum spurningum hafa komið fram, en ekki öllum. Rannsókn Svövu Bjargar Mörk og Önnu Elísu Hreiðarsdóttur hefur sýnt að gjaldfrjáls sex tíma leikskóli, þar sem færri börn dvelja síðdegis og starfsfólk fær þá aukið svigrúm til undirbúnings, hefur jákvæð áhrif á starfsanda, faglegt starf og skilvirkni. Breytingarnar geta þannig stuðlað að auknum gæðum í leikskólastarfi, og verið liður í því að skapa aðlaðandi starfsaðstæður fyrir kennara á leikskólastiginu.

Þessar niðurstöður eru þó aðeins hluti af heildarmyndinni. Engar kannanir hafa enn verið kynntar sem varpa ljósi á viðhorf foreldra til þjónustunnar. Upplifun og reynsla foreldra er lykilatriði þegar metin eru áhrif breytinga af þessu tagi, bæði hvað varðar skipulag fjölskyldulífs og jafnvægið milli vinnu og einkalífs. Án slíkra upplýsinga er ógerlegt að leggja heildstætt mat á árangur eða meta hvort breytingarnar hafi þjónað þeim tilgangi sem að var stefnt.

Lærdómur til framtíðar

Tilraunaverkefni af þessu tagi eru mikilvæg tækifæri til að þróa áfram þjónustu sveitarfélagsins, til hagsbóta fyrir bæði börn, foreldra og starfsfólk. En til þess að verkefnið skili raunverulegum árangri til framtíðar, þá þarf að fylgja því eftir með metnaði og krafti. Að öðrum kosti glatast lærdómurinn og umræðan um hugsanlegt framhald verður byggð á tilfinningum frekar en staðreyndum.

Ef bæði starfsfólk leikskóla og foreldrar eru ánægðir með breytt fyrirkomulag, þá er ástæða til að halda verkefninu áfram og festa í sessi. En ef vísbendingar koma fram um einhver

vandkvæði, þá er ekki síður mikilvægt að hlusta, bregðast við og gera umbætur. Það sem skiptir mestu máli nú er að ljúka því mati sem upphaflega var lofað – svo hægt sé að byggja framtíð leikskólaþjónustunnar á traustum, gagnsæjum og faglegum grunni.

Þannig tryggjum við að leikskólinn þróist í takt við þarfir barna, foreldra og starfsfólks.

Nýjast