Hverjir eignast börn? Félagslegar víddir fæðingartíðni og barnleysis - Félagsvísindatorg 21. október.
Undanfarnar vikur hefur Sunna kynnt rannsóknir sínar á fæðingartíðni, foreldrahlutverkinu og innviðum samfélags og nú býður hún fólki að hlýða á sig á Félagsvísindatorgi þann 21. október næstkomandi. Smellið hér fyrir frekari upplýsingar um Félagsvísindatorgið.
Sunna hefur meðal annars rannsakað fæðingartíðni á Íslandi í samstarfi við þau Ásdísi Arnalds og Ara Klæng Jónsson við Háskóla Íslands ásamt því að rannsaka Kópavogsmódelið sem notast er við í leikskólum í sveitarfélaginu.
Kynjaðar breytur
Í rannsóknum Sunnu, Ásdísar og Ara kemur fram að fæðingum á Íslandi hefur fækkað og fleiri kjósa barnleysi. Ástæðurnar snúa ekki bara að efnahag eða stefnumótun; þær snúa líka að tilfinningum. Foreldrahlutverkið hefur orðið að sérfræðigrein – með aðferðum um svefn, fæði og hegðun – og pressan lendir oftar en ekki á mæðrum. Ungar konur lýsa því að lífið verði að vera til fyrirmyndar áður en barnið kemur. Allt þarf að vera fullkomið. Hver hefur tíma fyrir það?
Þá er áhugavert að sjá að áður fyrr voru konur með lægsta menntunarstig líklegri til að eignast börn en eftir síðustu aldamót fór þessi þróun að breytast. Í dag eru konur með meistara- eða doktorsgráðu líklegri til barneigna.
Sunna segir að þróunin sé alþjóðleg þrátt fyrir ólík samfélög en að breytingarnar hafi komið síðar hér á landi en erlendis og ítrekar að barneignir eigi að vera persónuleg ákvörðun fólks.
„Ég tel varasamt að stjórnvöld hafi áhrif á vilja fólks til barneigna enda eigi fólk að velja sjálft. Þó er víða hægt að gera betur og þá sérstaklega hvað varðar umönnunarbilið. Rannsóknir okkar sýna að þetta er fjárhagslega erfitt tímabil og streituvaldandi sem býr til kynjaðar afleiðingar vegna þess að það eru helst konur sem brúa bilið.“
Leikskólarnir
Sunna hefur einnig rannsakað Kópavogsmódelið sem er notað í leikskólum Kópavogs. Í stuttu máli felst það í því að sex klukkutímar eru gjaldfrjálsir foreldrum fyrir utan fæðisgjald en aukatími kostar. Niðurstöður viðtalsrannsóknar hennar benda til að þessi breyting komi helst niður á ákveðnum samfélagshópum.
Konur grípi frekar til aðlögunar á sínu vinnuumhverfi, minnki vinnu, taki vinnu með sér heim og svo framvegis til að mæta þessu breytta módeli. Þá benda frásagnir foreldra til þess að módelið geti sérstaklega hentað illa fyrir foreldra í verri félagslegri- og efnahagslegri stöðu þar sem gengið er út frá því að foreldrar hafi gott félagslegt bakland með sveigjanleika í vinnu sem er ekki raunveruleiki allra foreldra.
„Þá var mjög áhugavert að sjá hvernig hin kynjaða umönnunarbyrði helst út lífið þar sem það kom fram í viðtölunum við foreldra að það væru oftast ömmur sem hlaupa undir bagga þegar dekka þarf skemmri leikskólavistun,“ segir Sunna.
Fleiri sveitarfélög hafa verið að taka upp svipað form og Kópavogsmódelið en þó er verið að skoða sveigjanlegri útfærslur sem koma frekar til móts við þá hópa sem hér hefur verið minnst á.
„Lausnin felst ekki í áróðri um barneignir heldur réttlátum, sveigjanlegum og aðgengilegum innviðum sem virða aðstæður fólks og byggja upp traust með raunverulegu samráði. Það þurfi til að komast til móts við kröfuna um að samþætta megi fjölskyldu- og atvinnulíf og byggja upp samfélag sem tekur mið af þörfum allra,“ segir Sunna að lokum.