Menntaskólinn á Akureyri - Umhverfisvænn lífstíll ætti að vera í tísku

Fatamarkaður umhverfisnefndar í Kvos    Mynd ma.is
Fatamarkaður umhverfisnefndar í Kvos Mynd ma.is

Umhverfisnefnd MA þetta skólaárið er mjög öflug og virk, en alls sitja 16 nemendur í nefndinni auk fulltrúa kennara. Ragnheiður Inga Matthíasdóttir er formaður nefndarinnar og segir að á fyrsta fundi hafa umræðan að mestu snúist um hvað ungt fólk væri að gera rétt og hvað mætti betur fara þegar kæmi að umhverfismálum.

Þau voru sammála um að vandamálið væri ofneysla ungs fólks. Því kviknaði sú hugmynd að vekja athygli á málefninu með því að halda viðburð, fatamarkað sem myndi snúa hjólum hringrásarhagkerfisins. Umhverfisvænn lífstíll ætti að vera tískufyrirbæri að mati nefndarinnar. Ragnheiður bætir við: „Fyrir markaðinn rigguðum við upp, með hjálp pabba míns, fataklefum og fataslám úr gömlum spýtum og vörubrettum sem voru á leið á haugana“.

Það varð svo úr að fatamarkaðurinn var haldinn við góðar undirtektir miðvikudaginn 1. október sl. Nemendur komu með notaðan fatnað, skartgripi, skó og fleira og settu upp sölubása í Kvosinni. Verkefnið var í alla staði vel heppnað og á nefndin hrós skilið. Vonandi verður leikurinn endurtekinn síðar.

ma.is sagði fyrst frá

 

Nýjast