Var 17. júní fundinn upp á Akureyri? Ný bók Páls Björnssonar leiðir lesendur inn í sögu þjóðhátíðardagsins

Páll Björnsson
Páll Björnsson

Það má segja að þjóðhátíðardagur Íslendinga hafi með nýlegri útgáfu bókarinnar Dagur þjóðar eignast sinn eigin sagnfræðing, Pál Björnsson, prófessor í nútímafræði og sagnfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Þar fjallar hann á nýstárlegan hátt um hvernig 17. júní varð að þjóðhátíðardegi Íslendinga – löngu áður en það var ákveðið með lögum.

Bókin er eins konar sögulegt ferðalag um hátíðarhöld og þjóðernisvitund, þar sem lesandinn hittir fyrir félaga úr sjálfstæðishreyfingunni, ungmennafélögunum, íþróttahreyfingunni og alþýðuna sjálfa.

„Það var gaman að skrifa þessa bók,“ segir Páll, „enda var það fólkið í landinu sem ákvað að 17. júní yrði í raun þjóðhátíðardagurinn með því að kjósa með fótunum og mæta á hátíðarhöld þann daginn. Það voru ekki yfirvöld sem ákváðu þessa dagsetningu.“

Þjóðarvitundin mótaði daginn

Í bókinni er lögð sérstök áhersla á 17. júní áður en lýðveldið var stofnað. „Fyrsti 17. júní sem ég fjalla um er árið 1907,“ segir Páll. „Þá voru hátíðahöld í helstu kaupstöðum landsins. Í Reykjavík fóru hátíðarhöldin fram á Austurvelli, í porti miðbæjarskólans, og gengið að leiði Jóns Sigurðssonar. Á öðrum áratug 20. aldar tekur íþróttahreyfingin við sér og Melavöllurinn verður miðpunktur dagsins, þar sem íþróttakeppnir, ræður og veitingasala mynduðu líflega hátíðarsenu.“

Það var hins vegar Ungmennafélagið á Akureyri, elsta ungmennafélag landsins, sem ruddi brautina í þessum efnum. Félagsfólk varð fyrst til að leggja til að 17. júní yrði gerður að þjóðhátíðardegi og að dagurinn yrði jafnframt almennur frídagur. Þar að auki urðu Akureyringar fyrstir til að skipuleggja hátíðarhöld með þeim hætti sem síðar áttu eftir að breiðast út um allt land, sem var að blanda saman íþróttakeppnum, skrúðgöngum, afþreyingu, veitingasölu og ræðuhöldum, þar sem Jón Sigurðsson var lofsamaður. Það má því á vissan hátt segja að 17. júní hafi verið fundinn upp á Akureyri.

Þegar líða tók á 20. öldina tóku fleiri dagar að keppa um hylli þjóðarinnar, meðal annars stjórnarskrárdagurinn 2. ágúst og fullveldisdagurinn 1. desember. 17. júní sigraði að lokum – án þess að nokkur formleg ákvörðun væri tekin um það. „Fólkið valdi daginn sjálft,“ segir Páll, „og það segir okkur heilmikið um hvernig þjóð verður til.“

Þegar lýðveldið var svo stofnað á Þingvöllum árið 1944 þá fór eiginlega engin umræða fram um það hvaða dagsetningu skyldi nota fyrir þjóðhátíðardag því að ákvörðunin um 17. júní hafði verið tekin löngu áður.

Frá Vestur-Íslendingum til lýðveldisins

Lesendur bókarinnar fá einnig innsýn í hvernig hátíðir Vestur-Íslendinga, sjálfstæðisbaráttan og breytt samfélag mótuðu merkingu dagsins. Í bókinni er einnig velt upp spurningum líkt og hvort allt fólk í landinu hafi átt jafnan aðgang að viðburðum hátíðarhaldanna. Þá er líka fjallað um þá staðreynd að þótt 17. júní hafi haldið sessi sínum sem þjóðhátíðardagur er samkeppnin orðin meiri í dag – með nýjum stórhátíðum eins og Menningarnótt og Gleðigöngu Hinsegin daga, auk bæjarhátíða hringinn í kringum landið.

Sagan, þjóðin og menning fléttast saman

Páll Björnsson er enginn nýgræðingur í rannsóknum á þjóðarvitund og táknmyndum. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011 fyrir bókina Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar og gaf út Ættarnöfn á Íslandi. Átök um þjóðararf og ímyndir árið 2021. Nýja bókin Dagur þjóðar heldur áfram á þeirri braut – að skoða hvernig sagan, þjóðin og menningin fléttast saman í daglegu lífi.

Í síðustu viku birtist ítarlegt viðtal Egils Helgasonar við Pál í sjónvarpsþættinum Kiljunni, þar sem rætt var um efni bókarinnar. Þau sem fylgjast með menningu og bókmenntum á Íslandi þekkja vel Kiljuna – og þar má segja að Páll hafi fært þjóðhátíðardaginn aftur inn á svið þjóðarsögunnar, í lifandi og forvitnilegri umfjöllun.

Þetta er ekki einungis fræðibók, heldur líka góð innsýn í það hvernig þjóð ákveður að fagna sjálfri sér.

 

Nýjast